Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Íslensk uppfinning gegn gosmengun

10.12.2014 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd:
„Þegar ég sá þetta með viftuna og blautan klút hugsaði ég - þetta er ekki mjög áhrifaríkt,“ segir Skúli Barker, verkfræðingur og uppfinningamaður, en hann hefur hannað ódýrt og hagkvæmt tæki sem hreinsar brennisteinsdíoxíð frá Holuhrauni úr híbýlum fólks.

Áhrifaríkt í neyð
Uppfinningin byggir á því að láta ryksugu blása lofti í gegnum vatnsfyllt rör en þannig dregur vatnsúlan í sig gosmengunina. „Ef mengun væri yfir hættumörkum og menn yrðu lokaðir af vildi ég búa til eitthvað sem menn gætu notað til að virkilega hreinsa loftið hjá og væri öflugra en það sem menn hefðu séu hingað til án þess að það kostaði hönd og fót,“ segir Skúli.

Loftbólutvístrarinn gegnir lykilhlutverki
Hann segir að uppfinningin hafi verið prófuð á rannsóknarstofu og náð að hreinsa 98% af SO2 úr loftinu. Inn í kerfið fór loft þar sem styrkur brennisteinsdíoxíðs var 500 mígrógömm á rúmmetra en út kom loft þar sem styrkurinn var kominn niður í 10 míkrógrömm. Skúli segir að það sem skipti sköpum sé sérstakur loftbóluvístrari sem hann hannaði. „Hann tryggir að loftbólurnar séu nógu smáar til að þetta virki. Ef þær eru of stórar er snertiflöturinn við vatnið ekki nógu mikill,“ segir Skúli.

Líka gagnlegt gegn ösku
Hann tekur fram að sían sé þannig útbúin að hægt sé að bæði blása eða soga loft í gegnum hana. En ef loftið sé sogið í gegn verði að nota ryksugu sem soga raka eða vatn. Hægt sé að fá ódýra þannig ryksugu fyrir um 8000 krónur. Ef kæmi til öskufalls yrði hægt að nota kerfið til að hreinsa ösku úr loftinu. „En þá væri betra að soga loftið í gegnum ryksuguna því þá færi loftið fyrst í gegnum vatnssúluna og askan yrði eftir í vatninu,“ segir Skúli. Svo væri hægt að skipta um vatn eftir þörfum.

Ódýr lausn
Hann tekur fram að til séu ryksugur sem taki loftið í gegnum vatn eins og Rainbow ryksugur en þær kosti skyldinginn. „Kunningi minn sem er lungnasjúklingur notaði sína Rainbow-ryksugu þegar mengunin náði til Reykjavíkur. Það dugði vel og hann fann strax mun. Ég vildi hinsvegar reyna að búa til eitthvað miklu ódýrara,“ segir Skúli. Allt sem þurfi í síubúnaðinn fáist í verslunum hér á landi nema nema loftbólutvístrarinn sem hann sérsmíðar. Hann er í viðræðum við fyrirtæki um dreifingu og hugsanlega samsetningu.

Hann langar líka til að útbúa youtube-myndband sem sýnir hvernig græjan virkar. „Ég byrjaði að hugsa um þetta fyrir sjálfan mig og fjölskylduna. Þetta er fyrst og fremst hugsjónastarf,“ segir Skúli Barker.