Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Íslensk talgreining Google ekki í boði

20.04.2015 - 14:45
Mynd: Háskóli Íslands / hi.is
Þróaðasti talgreinirinn fyrir íslenskt mál er í eigu Google og ekki er hægt að kaupa hann né heldur notkunarleyfi að honum. Sjálfseignarstofnunin Almannarómur, sem er nýstofnuð, vinnur nú að því að koma upp íslenskum máltæknibúnaði og þá talgreiningu fyrst og fremst.

Eiríkur Rögnvaldsson, málfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að fé vanti tilfinnanlega í þessa vinnu. Aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni hefur lagt til að um 40 milljónir króna séu settar árlega í verkefni þessu tengt. Á fjárlögum ársins í ár var framlagið hins vegar aðeins 15 milljónir. „Við vitum ekki meira. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið neina afstöðu til þessara tillagna.“

Ekki barátta við enskuna
Eiríkur, sem var gestur Helgarútgáfunnar á Rás 2, bendir á að börn alist í dag mikið upp við enskuna. Þau spila t.a.m. tölvuleiki sem eru á ensku og horfa mikið á barnaefni á ensku, í sjónvarpi og á netinu. Eiríkur segir að þetta sé þó ekki barátta við enskuna. „Það sem skiptir auðvitað máli er að fólk hafi val. Að fólk sé ekki þvingað til að nota annað mál en íslensku á einhverjum ákveðnum sviðum.“

En hvað er brýnast að gera í íslenskri máltækni, til að koma íslensku inn í tölvuheiminn? „Það brýnasta er vitundavakning. Að vekja athygli fólks á því hvaða máli þetta skiptir,“ segir Eiríkur.

Google skilur íslensku
Fyrir þremur árum var íslenskur talgreinir þróaður í samvinnu við Google og í snjallsímum með Android stýrikerfi er íslensk talgreining, sem Eiríkur segir mjög góða. „Það sýnir að það eru engir tæknilegir erfiðleikar við að koma íslensku inn í tölvurnar.“

Vandamálið er hins vegar það að Google á þennan talgreini og íslensk fyrirtæki geta ekki fengið aðgang að honum. Þess vegna er mikilvægt að koma þessari tækni til Íslands. „Ef Google ákveður að fara taka gjald fyrir þessa þjónustu, eða loka henni, þá gera þeir það og við getum ekkert gert,“ segir Eiríkur. „Það sem við þurfum að gera er að byggja upp svona talgreiningu til þess að koma tækninni og þekkingunni inn í landið

Vilji fyrir hendi en vantar fé
Sjálfseignarstofnunin Almannarómur, sem er nýstofnuð, vinnur nú að því að koma upp íslenskum máltæknibúnaði og þá talgreiningu fyrst og fremst. „Það er vilji fyrir hendi en okkur vantar fé“.