Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Íslensk stjórnvöld styðja aukin umsvif hersins

10.02.2016 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk stjórnvöld styðja að bandaríski herinn efli varnir hér á landi. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Ljóst sé að bandaríski herinn sé að auka umsvif sín á Íslandi, þótt aldrei hafi verið rætt um að opna herstöð í Keflavík að nýju. Það komi ekki til greina.

Vefrit bandaríska hersins, Stars and Stripes, greindi frá því í gær að Bandaríkjaher ætli að snúa aftur og hafa tímabundna aðstöðu á Íslandi. Sjóherinn gæti síðar meir farið fram á aðstöðu til langframa. Herinn hefur farið fram á fjármagn á næstu fjárlögum Bandaríkjanna til að færa í stand gamalt flugskýli hersins á Keflavíkurflugvelli, sem mun hýsa P-8 Poseidon vélar hersins. Óskað er eftir sem nemur rúmum tveimur komma sjö milljörðum króna í verkefnið.

Breytt öryggisástand

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að Bandaríkjamenn hafi lýst því yfir í september í fyrra að gera þyrfti við flugskýlið. Ekki hafi verið vitneskja um það meðal íslenskra stjórnvalda að óskað hafi verið eftir fjárveitingu til verkefnisins.

„Það sem er í þessari frétt er að þeir eru að óska eftir fjármunum til þess að uppfæra eða laga þetta flugskýli sem þeir þurfa að gera fyrir þessa nýrri tegund af kafbátaleitarvélum sem þeir eru að nota og hafa verið hérna á Íslandi undanfarin 2-3 ár við kafbátaleit í kringum Ísland. Um það snýst þessi frétt í rauninni. Þeir óska eftir þessum fjármunum og í rauninni er þetta gott fyrir okkur, að þeir séu reiðubúnir til þess að laga þetta flugskýli,“ segir Gunnar Bragi.

„En við höfum séð undanfarin 2-3 ár að það er meiri umferð og meira um að vera í Keflavík út af breyttu öryggisástandi í Evrópu og að sjálfsögðu meiri umferð í kringum Ísland.“

En hafa Bandaríkjamenn ekki lýst því yfir að þeir vilji vera með vélar hér tímabundið?

„Ja sko þeir hafa verið hér tímabundið. Þeir hafa verið í loftrýmisgæslu og öðru slíku. Þeir hafa komið hérna og verið hérna í 1-2 vikur með kafbátaleitarvélarnar. En þeir hafa aldrei rætt við okkur um að enduropna Keflavík eða vera með viðlíka viðveru og þar var á sínum tíma. Það er einfaldlega ekki í myndinni.“

Og kemur ekki til greina?

„Það kemur ekki til greina, hvorki af þeirra hálfu né okkar.“

En þeir eru að auka umsvifin engu að síður, ekki satt?

„Það er alls staðar verið að auka umsvif í Evrópu. Og við getum sagt jú, þeir eru að auka umsvifin vegna þess að þeir eru oftar með kafbátaleitarvélar hér til þess að leita í hafinu í kringum Ísland. Við sjáum líka að það er aðeins meiri umferð í lofti af mönnum sem eru ekki í Atlantshafsbandalaginu. Þetta kallar auðvitað á meiri viðveru. Hún getur að sjálfsögðu aukist, en hún getur líka minnkað. Það fer bara eftir því hvað er um að vera. En þetta er hluti af okkar varnarsamningi við Bandaríkjamenn að þeir komi hér og sinni vörnum. En ef þeir huga að meiri viðveru eða til lengri tíma þarf að ræða það við okkur og það hefur ekki verið gert.“

Eru þeir að þessu vegna meintrar ógnar frá Rússum?

„Þeir eru náttúrulega að þessu vegna þess að það er meiri umferð kafbáta í kringum Ísland og flugvélar líka en þetta snýst fyrst og fremst um meiri umferð í hafinu.“

Takmarkað svigrúm

Hvenær koma fulltrúar frá hernum í þetta verkefni?

„Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um það. Þeir eru að sækjast eftir þessar fjárveitingu. Hún þarf að samþykkjast fyrst þannig að það er ómögulegt að segja til um það.“

Þýðir þetta að það koma hingað hermenn á vegum bandaríska hersins?

„Það fylgja að sjálfsögðu hermenn kafbátaleitarvélunum. En ég get ekki ímyndað mér að það verði í kringum þessa breytingu á flugskýlinu. En það er að sjálfsögðu mannskapur sem fylgir þessum vélum. Og um tíma, að mig minnir sumarið 2014, voru fimm kabátaleitarvélar í Keflavík og því fylgir að sjálfsögðu starfsmenn, hermenn. Öll aðstaða er til reiðu í Keflavík. Við höfum haldið henni við, Íslendingar. Landhelgisgæslan stendur sig frábærlega í að þjónusta þessa aðila. Þannig að það er ekkert skrítið að menn komi hérna inn og fari aftur.“

Getur bandaríski herinn ákveðið upp á sitt einsdæmi að nýta þessa aðstöðu og vera með herlið hér á landi, þó það sé ekki varanlegt?

„Það er náttúrulega í samningum okkar, bæði við NATO og Bandaríkjamenn, að það er ákveðið svigrúm. En það er mjög takmarkað. Ef það á að fara í einhverja meiriháttar viðveru þarf að ræða það við okkur. Það hefur ekki verið gert og við munum ekki líða það heldur að hér verði einhver mikil umsvif án þess að talað verði við okkur. Það er ekki þannig.“

„Já gjörið svo vel“

En hvernig hafa þá þessar viðræður við Bandaríkjamenn átt sér stað, um þetta flugskýli?

„Þeir lýstu því bara yfir þegar þeir voru hér í september að það þyrfti að gera þessar breytingar. En svo það sé tekið fram vissum við ekki að þeir hefðu óskað eftir fjárveitingu í þetta. En vonandi fá þeir hana og geta þá lagað þetta skýli. Þannig að þessar vélar, sem eru okkur mikilvægar, geti þá verið þarna.“

Hefur þetta mál verið rætt í ríkisstjórn?

„Nei nei, þetta hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn. En það má finna þingræður þar sem ég hef sagt frá því að það megi búast við aukinni viðveru og aukinni umferð og að sjálfsögðu hefur það verið rætt í ríkisstjórn og fyrir utanríkismálanefnd.“

Hafa íslensk stjórnvöld formlega samþykkt aukna viðveru, eða þurfa þau þess ekki?

„Á einhverjum tímapunkti þurfum við auðvitað að samþykkja að það sé farið í viðgerð og viðhald á þessu skýli. Fyrst þarf hins vegar að ná í fjármagnið, sem þeir eru að gera. Þannig að ég geri ráð fyrir það þeir muni hitta okkur á einhverjum tímapunkti og spyrja hvort þeir megi fara í þetta. Þannig tel ég eðlilegt að þetta gangi fyrir sig.“

Hverju mynduð þið svara?

„Við myndum segja „Já gjörið svo vel, það er gott að þið ætlið að laga fyrir okkur flugskýlið.““

En styðja íslensk stjórnvöld að bandaríski herinn auki umsvif sín hér á landi?

„Við styðjum það að sjálfsögðu að okkar varnir séu efldar. Við styðjum að vinir okkar í NATO eða bandaríski herinn komi hingað til þess að bregðast við aukinni umferð. Að sjálfsögðu gerum við það. En ef þú ert að fiska eftir því hvort við styðjum að Keflavíkurstöðin verði opnuð upp á nýtt held ég að enginn sé að tala um það. Það dettur það engum í hug, hvorki okkur né þeim.“

Er sá stuðningur af öryggisástæðum eða að einhverju leyti efnahagslegum?

„Hann er fyrst og fremst af öryggislegum ástæðum. En ef það verða aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli kallar það auðvitað á aukna þjónustu. Það kallar vitanlega líka á aukna þjónustu af hálfu íslenska ríkisins sem kallar á aukin útgjöld hjá okkur. En við vitum að öll verslun og umsýsla og þjónusta sem er keypt af almennum fyrirtækjum utan Keflavíkur styrkir að sjálfsögðu efnahagskerfið þar í kring.“

Tjá sig ekki

Þær upplýsingar fengust úr bandaríska sendiráðinu á Íslandi í morgun að fulltrúar sendiráðsins ætli ekki að tjá sig um málið að svo stöddu, og var vísað á bandaríska varnarmálaráðuneytið.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis óskaði í dag eftir að utanríkismálanefnd verði kölluð saman til fundar eins fljótt sem auðið er vegna málsins. Í ósk sinni um tafarlausan fund í nefndinni um málið segir Steinunn Þóra það afar mikilvægt að utanríkisráðherra verði kvaddur á þann fund til að útskýra málið fyrir nefndinni.