Íslensk stjórnvöld harma tilskipun Trumps

29.01.2017 - 20:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk stjórnvöld harma tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við landgöngu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna og lýsa þungum áhyggjum af því hvaða afleiðingar hún kunni að hafa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu sem barst upp úr klukkan sjö í kvöld.

Þar segir jafnframt að íslenskir ríkisborgarar, sem upprunir eru frá einhverjum þeirra landa sem falli undir tilskipun Bandaríkjaforseta, muni hljóta fullan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar komi til þess að þeim verði meinuð innganga í Bandaríkin á grundvelli uppruna síns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, telur það fjarri lagi að bann við komu flóttafólks og íbúa ákveðinna ríkja sé besta leiðin til að tryggja öryggi Bandaríkjanna, sem er yfirlýst markmið tilskipunarinnar.

„Hún er svo þvert á það sem við eigum að venjast frá Bandaríkjunum. Bandarísk þjóð er ung þjóð, samanstendur af stórum hluta, jafnvel stærstum hluta, af innflytjendum,“ sagði Guðlaugur í sjónvarpsfréttum RÚV.

Kallar þetta ekki á mjög hörð viðbrögð stjórnvalda hér?

„Ég er nú búinn að láta í mér heyra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda frá því í morgun og í allan dag. Við munum koma þessum skilaboðum okkar og athugasemdum og mótmælum skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld með réttum leiðum. Það er augljóst að við verðum ekki ein í því. Norrænir kollegar mínir - án þess að við höfum haft neitt samráð um það, það kom af sjálfu sér - hafa gert það líka,“ segir Guðlaugur.

 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi