Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íslensk náttúra breytist en ferst ekki

28.02.2019 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Miklar breytingar eru að verða í íslenskri náttúru, segir Bjarni D. Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Það sé eðli norðurslóða að ganga í gegnum hraðar hitabreytingar og íslensk náttúra hafi áður gengið í gegnum slíkar breytingar.

Meðalhiti á Íslandi hefur aukist um 2 gráður

„Ef við förum til baka um 40 ár þá var meðalhiti á Íslandi um það bil fjórar gráður og núna síðustu 15 árin er hann búinn að vera tæpar sex gráður, þannig að það hefur hlýnað um einn þriðja á Íslandi í meðalárshita.“

„En staðreyndin er samt sú að ef við horfum á 50 ár eða 100 ár þá hlýnar alveg jafn mikið á Íslandi og alls staðar annars staðar í heiminum. Það bara dansar meira í kringum þetta meðaltal á hverju ári.“

„Ísadögum á Þingvallavatni fækkar - það er mjög afgerandi, sérstaklega eftir síðustu aldamót,“
„Það er búið að vera bara núll. Það hefur ekki lagt í einhver ár.“

— Finnur Ingimarsson, forstöðumaður Náttúrustofu Kópavogs

Mynd með færslu
 Mynd:
Hækkandi hiti breytir lífríki Þingvallavatns

Áhrifin mest í hafinu

„Við erum að sjá þetta í breyttu göngumynstri sumra af okkar mikilvægustu fiskistofnum. Við erum að sjá gríðarlega mikla breytingu í tegundum sem við erum að veiða, eins og til dæmis makríllinn sem kemur nýr inn í íslenska lögsögu. Við erum líka að sjá þetta í neikvæðum afleiðingum eins og til dæmis út af þessum breytingum í hafinu þá hefur orðið röskun í fæðukeðjunni sem að sumar lífverur eins og til dæmis sjófuglar hafa fengið að líða mjög mikið fyrir hérna á Suður- og Vesturlandi. Það verður ákveðið hrun 2005 á öllum okkar helstu sjófuglategundum sem verpa hérna við suður- og vesturströndina.“

 Þrjátíu nýjar fiskitegundir í íslenskri lögsögu
„Á undanförnu hlýindaskeiði þá höfum við séð yfir þrjátíu nýjar tegundir í lögsögunni.“
„Við höfum eiginlega séð breytingar á öllum þrepum má segja nánast í fæðukeðjunni.“

— Ólafur S Ástþórsson, sérfr. hjá Hafró

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons/Ramon FVelasqu
Makríll nýr í íslenskri lögsögu

Ásýnd landsins hefur breyst

Hlýnun um tvær gráður hefur líka haft mikil áhrif á landi. Gervihnettir hafa mælt grænkustuðul um allan heim frá því 1982. Þeir svífa einu sinni til tvisvar í viku yfir Ísland og mæla grósku.

„Og frá því um 1982 þegar þessar mælingar hófust til ársins 2010 þá jókst grænkustuðull Íslands um 80 prósent, það grænkaði um 80 prósent. Það þýðir ekki að það hafi breiðst út gróðurlendi svo mikið heldur fyrst og fremst að gróið land er orðið grænna.“
 

Gróðurbreytingar geta haft áhrif á fuglalíf á Íslandi.
 „Og rannsóknir bæði hérlendis og erlendis sýna það að þessir bersvæðisfuglar, margir hverjir, þrífast illa þegar gróður hækkar og gróskan eykst. Hefur það gerst hér? Það er yfirstandandi hérna“

— Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðum. rannsóknarseturs HÍ, Suðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd:
Lóa kann best við sig í móa

Bætt ræktunarskilyrði, meindýr og pestir  

Ræktunarskilyrði eru betri hér á landi samfara hlýnuninni og aukinni úrkomu.„Þegar gróskan eykst og lífmagnið eykst í okkar vistkerfum verður líka meira pláss fyrir ýmsar aðrar lífverur. Þegar kemur að ræktun þá tölum við um meindýr og pestir.“

„Við erum í skógrækt og landbúnaði á Íslandi að upplifa meiri skemmdir af völdum skordýra og sjúkdóma heldur en við vorum að gera á köldu árunum. Og það er alveg sambærilegt við það sem er sunnan við okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Erling Ólafsson - RÚV
Birkiþéla er nýr landnemi á Íslandi sem er þekktur skaðvaldur í Evrópu

Hefur áhrif á samskipti þjóða og öryggi í heiminum

„Ég hef miklar áhyggjur af þessum breytingum á heimsvísu og hvaða áhrif þær munu hafa á samskipti þjóða og öryggi í heiminum. Ég hef miklu meiri áhyggjur af slíkum áhrifum af þeim loftslagsbreytingum sem eru að ganga yfir og munu ganga yfir heldur en af einhverjum stórslysum í íslenskri náttúru.“

„Það eru að verða gríðarlegar breytingar í íslenskri náttúru. Það er svolítið eðli norðuslóða að ganga í gegnum hraðar breytingar í hitafari. Íslensk náttúra hefur gengið í gegnum slíkar breytingar og hún mun breytast en ekki farast. En hvaða áhrif þetta hefur og sérstaklega á önnur svæði en Norður-Evrópu og hvaða áhrfð það hefur á okkar lífsskilyrði í okkar hlutum heimsins - ég held að þar muni reyna á okkar alheimskerfi, bæði efnahagslegt, félagslegt og öryggislegt.“
 

Vetrarfuglatalning
„Þannig að í ár sáust um eða yfir 90 tegundir fugla í talningunni og það hafa aldrei sést jafnmargar tegundir.“

— Kristinn Haukur Skarphéðinsson, vistfr. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands