Íslendingur særðist í sprengjuárás í Istanbúl

19.03.2016 - 13:36
Erlent · Asía
epa05220095 Turkish policemen stand in a cordon off street after a suicide bomb attack at Istiklal Street in Istanbul, Turkey, 19 March 2016. According to media reports, two people have died and seven injured in the suicide bomb in Istiklal Street, a main
 Mynd: EPA
Íslendingur er meðal þeirra sem særðust í sjálfsvígssprengjuárás við fjölfarna verslunargötu í miðborg Istanbúl í Tyrklandi í morgun. Þetta staðfestir íslenska utanríkisráðuneytið.

5 eru látnir og 36 særðir, þar af 7 alvarlega. 12 hinna særðu eru erlendir borgarar. 

Greint var frá þjóðernum hinna særðu í tyrkneskum fjölmiðlum og á Al Jazeera fréttastöðinni og vitnað í upplýsingar frá tyrkneska heilbrigðisráðuneytinu.

Fulltrúi tyrkneskra stjórnvalda hafði samband við íslenska utanríkisráðuneytið skömmu síðar og greindi frá því að Íslendingur væri meðal hinna særðu en frekari upplýsingar fengust ekki. Ekki er vitað hve alvarlega Íslendingurinn er særður eða hver hann er. Utanríkisráðuneytið er nú að afla frekari upplýsinga.

Árásin var gerð kl. 11 í morgun að staðartíma, kl. 9 að íslenskum tíma, við Istiklal-götu sem er löng göngugata í miðborg Istanbúl. Þar eru fjöldi verslana, kaffihúsa, leikhúsa og ræðismannsskrifstofa.

Engin samtök hafa lýst árásinni á hendur sér. Röð hryðjuverka hafa verið framin í Tyrklandi síðustu misseri og hefur verkamannaflokki Kúrda, PKK, og Íslamska ríkinu verið kennt um þau.

Viðbót 20. mars 2016: Utanríkisráðuneytið hefur fengið það staðfest að enginn Íslendingur hafi særst í árásinni. Maðurinn sem talinn var vera Íslendingur reyndist vera írskur ríkisborgari.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi