Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Íslendingur handtekinn í Tyrklandi

10.03.2013 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Örn Bjarnason, 28 ára Íslendingur búsettur í Svíþjóð, var handekinn á flugvelli í Tyrklandi, aðfaranótt föstudags. Hann er grunaður um smygl á fornminjum.

Keyptu marmarastein á markaði

Davíð hafði verið á ferðalagi í Tyrklandi ásamt kærustu sinni Þóru Birgisdóttur. Í samtali við fréttastofu segir Þóra þau hafa keypt marmarastein á markaði sem lögreglan hafi fundið á flugvellinum og sagði vera fornminjar. Mál Davíðs verður aftur tekið fyrir á morgun og segir Þóra að hann gæti átt yfir höfði sér 3-10 ár í fangelsi eða 8-24 milljóna króna sekt.

Treystir sér ekki til að vera ein í Svíþjóð

Þóra og Davíð deildu ferðatösku. Henni var hins vegar sleppt á flugvellinum og segist hafa fengið hálfgert taugaáfall. Þau fluttu til Svíþjóðar fyrir tæpu ári síðan ásamt þremur börnum. Þegar fréttastofa náði tali af Þóru var hún að pakka ofan í tösku því hún treystir sér ekki að vera ein með börnin fjarri heimahögum meðan þetta gengur yfir. Þóra segir ræðismann Íslands í Tyrklandi sem og utanríkisráðuneytið vinna í máli Davíðs.

Hér að ofan má hlusta á viðtal fréttamannsins Berglindar Häsler við Þóru.