Íslendingur fer fyrir dómara í vikunni

13.01.2020 - 14:57
Mynd: RÚV / RÚV
Íslenskur karlmaður um fertugt, sem handtekinn var í Torrevieja í gær, grunaður um að hafa orðið sambýlismanni móður sinnar að bana verður leiddur fyrir dómara í vikunni og afstaða tekin til ásetnings og annarra kringumstæðna. Þetta segir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Alicante, í viðtali við fréttastofu RÚV. Hún vill ekki upplýsa frekar um rannsókn málsins.

Hún vill ekki svara því hvort maðurinn hafi játað sök en staðfestir að þetta hafi gerst í hverfinu Barrio de los Balcones í Torrevieja.  

Vefmiðillinn Information í Alicante greinir frá því að yngri maðurinn hafi rutt sér leið inn á heimili móður sinnar um miðja nótt með því að stökkva yfir vegg við húsið. Móðir hans hafi haldið því fram að inni í húsinu hafi komið til handalögmála á milli sonar hennar og sambýlismanns. Sonurinn hafi hrint manninum á rúðu sem brotnaði og að hann svo látist af sárum sínum. 

Í frétt á vef miðilsins segir að eftir nánari rannsókn á vettvangi telji lögregla ljóst að frásögn konunnar standist ekki, þetta hafi ekki verið manndráp af gáleysi. Lögreglan ráði það af tvennu; annars vegar glerbrotunum og hins vegar því að hinn látni hafi verið með stungusár eftir hníf. Enn sé þó beðið niðurstöðu krufningar.

Þær upplýsingar fengust frá utanríkisráðuneytinu að borgaraþjónustu ráðuneytisins sé kunnugt um mál sem varði andlát Íslendings á Spáni. 

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbót úr sjónvarpsfrétt sem hægt er að horfa á í spilaranum efst í fréttinni. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV