Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Íslendingur á leið út í geim

13.03.2011 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Flestir láta sér nægja að dreyma um geimferðir en Gísli Gíslason er ekki einn þeirra. Rafbílar eiga hug hans allan í vinnunni en frítímann nýtir hann til undirbúnings geimferðar sinnar. Gísli verður fyrstur Íslendinga til að fara út í geim með Virgin flugfélaginu sem býður nú almenningi upp á far með geimskutlu.

„Þetta eru nokkrir klukkutímar. Við byrjum á því að geimflauginni sjálfri er skotið upp með annarri flugvél síðan þegar við erum komin í 50 þúsund fet þá förum við á fjórföldum hljóðhraða út í geim og þegar við erum komin út í geim er slökkt á öllum vélum og við verðum í þyngdarleysi í nokkra klukkutíma. Horfum á jörðina, tunglið og njótum lífsins í floti,“ segir Gísli.

Gísli hefur fylgst með þróun mála hjá Virgin flugfélaginu í tæp tvö ár eða síðan þeir fyrst kynntu möguleikann á farþegageimferðum. Hann bókaði síðan farið í byrjun ársins gegnum heimasíðu fyrirtækisins og  fékk staðfestingu um að för hans yrði að veruleika senda fyrir helgi. Ferð sem þessi krefst undirbúnings en Gísla er lofað að hann fari út í geim innan þriggja ára.

„Það eru svona  2-3 ár þar til ég kemst upp. Ég hef verið að skrópa soldið í ræktinni síðustu þrjú ár þannig að nú verður maður að fara, “ segir Gísli.

Reisa sem þessi kostar skildinginn en samkvæmt heimasíðu Virgin er verðið  tvöhundruð þúsund dollarar eða um þrjátíu milljónir króna. Fyrirtæki sem Gísli hefur starfað með erlendis hafa lýst áhuga á því að taka þátt í fjármögnun ferðarinnar gegn auglýsingu.