Íslendingum fjölgar um tvo á Ólympíuleikana í Tókýó

Mynd með færslu
 Mynd: FSÍ

Íslendingum fjölgar um tvo á Ólympíuleikana í Tókýó

13.03.2020 - 07:55
Hlín Bjarnadóttir og Björn Magnús Tómasson hafa verið valin af FIG, Alþjóða fimleikasambandinu til að dæma í fimleikakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í sumar. Þar með fjölgar Íslendingum á leikunum um tvo, en aðeins einn keppand hefur enn sem komið er unnið sér inn keppnisrétt á leikana fyrir hönd Íslands.

Aðeins sundkappinn Anton Sveinn McKee er með öruggan þátttökurétt á leikunum sem hefjast 24. júlí í Tókýó og lýkur 9. ágúst. Anton Sveinn náði lágmarki í 200 m bringusundi þann 25. júlí í fyrra. Enn eru nokkrir keppendur í hinum ýmsu greinum sem halda svo í vonina að vinna sér inn keppnisrétt inn á Ólympíuleikana. Frestun á mótahaldi vegna kórónuveirunnar hefur þó sett strik í reikninginn hjá einhverjum.

Nokkrir íslenskir þjálfarar verða þó í eldlínunni í Tókýó. Þegar er ljóst að Dagur Sigurðsson mun stýra japanska karlalandsliðinu í handbolta á leikunum og Aron Kristjánsson landsliði Barein. Það ætti svo að koma í ljós um miðjan apríl hvort Alfreð Gíslason verði líka á svæðinu með þýska karlalandsliðið og Þórir Hergeirsson með norska kvennalandsliðið. Þá er lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar, sænski kringlukastarinn Daniel Ståhl líka öruggur inn á leikana.

Einn íslenskur fimleikadómari dæmdi á Ólympíuleikunum í Ríó de Janeiro fyrir fjórum árum. Það var Anton Heiðar Þórólfsson. Nú verða þeir hins vegar tveir, Hlín og Björn Magnús. Þetta verða fjórðu Ólympíuleikarnir þar sem Björn Magnús verður meðal dómara. Hann dæmdi einnig á leikunum í Sydney 2000, Aþenu 2004 og í London 2012.