Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslendingum erlendis ráðlagt að íhuga heimferð

17.03.2020 - 01:37
epa08298724 People wait at the La Laguna airport in Tenerife, Canary Islands, Spain, 16 March 2020. The Canarias regional Government is closing its touristic facilities, repatriating foreign tourist and reducing flights to the Spanish peninsula to 20 flights a day in an effort to stop the spreading of the Covid-19 coronaviurs.  EPA-EFE/Cristobal Garcia
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Íslensk stjórnvöld mælast til þess að Íslendingar á ferðalagi erlendis eða þeir sem dvelja þar tímabundið íhugi heimferð til Íslands. Þetta á sérstaklega við fólk sem er eldra en 60 ára, er með undirliggjandi sjúkdóm, er fjarri vinum og fjölskyldu, eða á ekki rétt á heilbrigðisþjónustu í landinu sem það dvelst eða heilbrigðiskerfið í landinu annar ekki álaginu. Ef tvö af þessum atriðum eiga við Íslendinga erlendis mæla íslensk stjórnvöld með að þeir íhugi heimferð til Íslands. 

Sérstök athygli er vakin á því að fólk sem sýnir sjúkdómseinkenni gæti átt á hættu að vera synjað um innritun í flug. Þá er bent á að sóttvarnarlæknir hefur meðal annarra ríkja skilgreint Spán sem há-áhættusvæði og búast megi við talsverðu álagi á heilbrigðiskerfið þar í landi. íslendingar sem koma frá Spáni þurfa að fara í sóttkví í fjórtán daga eftir heimkomu, og á það líka við um þá sem dvelja á Kanaríeyjum.

Utanríkisráðuneytið bendir á að hægt er að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins með skilaboðum á Facebook, með tölvupósti á hjalp (hjá) utn.is eða í neyðarsíma borgaraþjónustu +354 545-0112 sem er opinn allan sólarhringinn.