Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íslendingar meira á ferðinni en aðrir

04.07.2018 - 09:43
Mynd: rúv / rúv
Íslendingar fara fleiri ferðir á milli staða daglega en þekkist annars staðar, samkvæmt niðurstöðum könnunar á ferðavenjum. Aðeins í borginni Atlanta í Bandaríkjunum fer fólk jafn oft á milli staða dag hvern. Hver Íslendingur fer að meðaltali fjórar ferðir á milli staða á dag, ýmist akandi, hjólandi, gangandi, með almenningssamgöngum eða á annan hátt.

Meðaltal ferða víðast hvar um heiminn er rúmar þrjár ferðir á dag. Vegagerðin veitti styrk til þess að skoða erlendar kannanir og rannsaka hvort þær væru gerðar með öðrum hætti en hér á landi og hvort að munurinn lægi í mismunandi aðferðum. Að sögn Smára Ólafssonar, samgönguverkfræðings hjá VSÓ, kom í ljós að svo var ekki og Íslendingar eru einfaldlega meira á flakki en aðrir. 

Virkni á vinnumarkaði og bílaeign hafa áhrif

„Við týndum til nokkra punkta sem kannanir sýna að ýta undir fleiri ferðir, svo sem háar tekjur, aðgangur að bíl og fjölskyldumynstur,“ sagði Smári í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sagði að upp að vissu marki væru fleiri ferðir hjá stórum barnafjölskyldum, til dæmis þar sem börnum sé ekið í tómstundir. Þá hafi virkni á vinnumarkaði einnig mikið að segja. Þá bæði þarf fólk í flestum tilfellum að ferðast til að frá vinnu og fær tekjur. 

Íbúar í borginni Atlanta í Bandaríkjunum fara álíka margar ferðir á dag að meðaltali og Íslendingar. Ísland er meðal þeirra ríkja þar sem bílaeign er sem mest. Að sögn Smára eru um 700 bílar á hverja þúsund íbúa hér á landi, álíka mikið og í Bandaríkjunum og á Nýja-Sjálandi. Til samanburðar eru um 600 bílar á hverja þúsund íbúa í Finnlandi. 

Ætla að rannsaka ferðir Íslendinga nánar

Smári segir ljóst að félagsleg einangrun og hreyfanleiki haldist í hendur og að því leyti séu niðurstöðurnar hér á landi ánægjulegar. Sex prósent þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust aldrei fara neitt. Til stendur að rýna enn frekar í niðurstöðurnar og hvað liggur á bak við þær, til dæmis hvort flakk landsmanna skapi streitu og sé eitthvað sem þurfi að hafa áhyggjur af. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir