Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íslendingar með tvenn verðlaun Norðurlandaráðs

OSLO 20181030: 
Nordisk Råds prisutdeling 2018 tirsdag kveld i Oslo, Norge. 
Operaen i Oslo. 
Vinneren av  Nordisk Råds priser, her fotografert sammen med Kronprinsparet.
 Mynd: Norden

Íslendingar með tvenn verðlaun Norðurlandaráðs

30.10.2018 - 20:44

Höfundar

Afhending verðlauna Norðurlandaráðs fór fram í kvöld. Þar hlutu Íslendingar verðlaun í tveimur flokkum, fyrir bestu bók og bestu kvikmynd. Einnig voru veitt verðlaun í flokki barna- og unglingabókmennta og tónlistar, auk umhverfisverðlauna.

Kvikmyndin Kona fer í stríð, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og eftir handriti Ólafs Egilssonar, fékk verðlaun í flokki kvikmynda. Auður Ava Ólafsdóttir fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Ör.

Benedikt Erlingsson þakkaði í fyrstu pent fyrir sig og sitt teymi þegar hann tók við verðlaununum en veitti svo aðalpersónu myndarinnar orðið. „Við erum stödd hér frammi fyrir stjórnmálaelítu Norðurlanda. Þið eruð mjög mikilvægur hópur fólks, vegna þess að þið hafið gripið til vopna gegn loftslagsbreytingunum. Þið eruð mjög hugrakkt fólk, því þið munið fljótlega þurfa að segja við kjósendur ykkar: kjósið mig og ég mun sjá til þess að þið fáið minna af öllu. Gangi ykkur vel með það. Minna af hlutum, minna af kjöti og minna af ferðalögum, en til að selja þetta gætuð þið ef til vill fleygt í pakkann meiri menningu og gamani.“ 

Mynd: cc / cc

Ólafur Egilsson fékk að lokum orðið og sagði við værum mögulega síðasta kynslóðin sem gæti stemmt stigu við loftslagsbreytingarnar. „Þið, pólitíkusarnir, gegnið mikilvægasta hlutverkinu – að vera í fararbroddi. Þegar, og ef, ykkur tekst ætlunarverkið þá getið þið haldið áfram að karpa um aðra hluti.“

Tilkynnt var um handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs undir lok dagskrár. „Þar sem það er sérgrein mín að skrifa á minnihlutatungumáli sem hefur ekki verið mælt af ykkur áhorfendum síðan á 13. öld, þá geri ég þetta á tungumáli ljóðskálds sem skrifaði um danskann prins, en ekki á dönsku,“ sagði Auður Ava þegar hún tók við verðlaununum.

Mynd: Norden / Norden

Auður Ava þakkað Norðurlandaráði fyrir að veita verðlaunin bók um getu mannsins til að endurnýja sig, „um ferðalag úr myrkri til birtu. Bók sem spyr spurninga eins og: Hversu mikilvægt er að láta gott af sér leiða og hvernig réttlætum við okkur sjálf með verknuðum en ekki orðum? Í veröld þar sem athyglinni er náð með því einu að æpa nógu hátt er þögnin meðal sem græðir ör og linar sársauka.“ Hún bætti að lokum við að þar sem hún kæmi frá landi sem er án hers og framleiðir hvorki vopn né selur þau, þá teldi hún það ekki vera hræsnisfullt að skutla íslensku friðarefni út í veröldina.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir tónlist og barna- og unglingabókmenntir, auk umhverfisverðlauna.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hlaut færeyski rithöfundurinn Bárður Oskarsson fyrir myndabókina Træið. Oskarsson hlýtur verðlaunin fyrir frásögn sem þorir að fara sér hægt í veruleika sem einkennist af stöðugu áreiti.

Nils Henrik Asheim, vinnare av Nordiska rådets musikpris 2018
 Mynd: Norden
Nils Henrik Asheim, handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.
Naturresursrådet i Attu, vinnare av Nordiska rådets miljö- och naturpris 2018
 Mynd: Norden
Pâviârak Jakobsen tók á móti verðlaunagripnum fyrir hönd Náttúruauðlindaráðsins í Attu í Grænlandi.

Per Ole Frederiksen, Pâviârak Jakobsen og Nette Levermann tóku við Umhverfisverðlaununum fyrir hönd Náttúruauðlindaráðsins í Attu við vesturströnd Grænlands, fyrir ötult starf að skrásetningu upplýsinga um hafsvæði og fyrir tillögur að leiðum til stjórnunar hafsvæða.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Auður fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Kvikmyndir

Kona fer í stríð fær verðlaun Norðurlandaráðs