Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslendingar fá kókaínið beint frá framleiðanda

14.10.2019 - 21:51
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Mikill styrkur kókaíns sem kemur til Íslands bendir til tengsla íslenskra glæpahópa í Suður-Ameríku beint við framleiðendurna. Kókaín sem lagt hefur verið hald á í ár gæti selst á upp undir tvo milljarða.

Um 35 kíló af kókaíni hafa komið til landsins í ár og þrjú stærstu kókaínmál Íslandssögunnar öll komið upp á árinu, eins og fréttastofa greindi frá í gær. Þetta kókaín er líka mjög sterkt, um eða undir 90 prósent að styrkleika, og þess vegna hægt að þynna það mikið út fyrir götusölu, jafnvel fjórfalt. Þannig yrði götuvirðið upp undir tvo milljarða króna.

„Staðan er eiginlega sú núna að við erum að sjá kókaín í nákvæmlega sama styrkleika og innflutningshópar eru með í Evrópu,“ segir Karl Steinar Valsson. „Og það eru í raun og veru mjög alvarleg tíðindi fyrir okkur vegna þess að það segir okkur að það eru bein samskipti milli hópa sem eru að flytja kókaín til Íslands og þeirra sem eru að framleiða það, sem er þá mest gert í Suður-Ameríku.“

Fyrir nokkrum árum hafi styrkleikinn tekið að aukast.

„Þá var eins og þeir væru með aðgang að einhverjum stórum hópum í Evrópu sem voru að selja þeim, en núna eru þeir komnir með beina tengingu,“ segir Karl Steinar.

Tugir manna í glæpahópunum

Kókaín sé að mestu upprunnið í Kólumbíu, Perú og Brasilíu og íslensku glæpahóparnir séu taldir starfa þar.

„Já, eru með einhverja starfsemi í þessum löndum. Annað hvort eru þá menn þar eða aðilar sem fara þangað til að ganga frá þessum samningum.“

Þið vitið hverjir þetta eru, eða hvað?
„Ja, við vitum ýmislegt. Og vinnum auðvitað bæði með erlendum samstarfsaðilum, auk þess sem við náttúrulega vekjum athygli á því sem við sjáum og við höfum upplýsingar um,“ segir Karl Steinar.

Þetta séu nokkrir hópar. „Ég vil kannski ekki tilgreina nákvæmlega hvað það er sem við vitum. En þeir eru nokkrir og í þeim eru alltaf einhver tugur manna.“

Sérkennilegt að reyna að smygla 16 kílóum í ferðatösku

Eitt mál sker sig úr hvað stærð varðar – þegar tveir ungir Íslendingar voru gripnir með 16 kíló í tveimur ferðatöskum í Leifsstöð. Þetta segir Karl Steinar óvenjulegt.

„Þessi leið kannski, með svona mikið magn, er óvenjuleg. Það er það sem við stöldrum við. Það að flytja 16 kíló í ferðatöskum á milli landa er svona frekar sérkennileg leið.“

Frekar sé gert ráð fyrir að svona magni sé smyglað öðruvísi – til dæmis sjóleiðina.

„Það er spurning hvort aðstæður hafi verið eitthvað sérstakar á þessum tíma og menn hafi verið að grípa til einhverra annarra leiða í þetta skipti.“