Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íslendingar ekki fengið skammarbréf frá Trump

03.07.2018 - 12:10
President Donald Trump speaks during a cabinet meeting at the White House, Monday, April 9, 2018, in Washington. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP
Íslensk stjórnvöld hafa ekki fengið bréf frá Trump Bandaríkjaforseta með skömmum fyrir að verja ekki nægu fé til varnarmála. New York Times greindi frá því í gær að Trump hefði í júní sent harðorð bréf til ýmissa Nató-ríkja, meðal annars Þýskalands, Belgíu, Noregs og Kanada.

Í bréfunum hefði hann varað þarlend stjórnvöld við því að Bandaríkin væru að tapa þolinmæðinni gagnvart ríkjum sem drægju lappirnar í útgjöldum til eigin landvarna og stæðu þannig ekki undir sameiginlegum skuldbindingum Atlantshafsbandalagsins. Hann lét í það skína að með þessu áframhaldi gætu Bandaríkin neyðst til að draga úr framlögum sínum til Nató. Belgíski forsætisráðherrann hefur tjáð sig um sendinguna og sagst lítt upprifinn af bréfum sem þessum.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Lára Björg Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, að ekkert bréf af þessu tagi hafi borist Íslendingum. Í þjóðaröryggisstefnu Íslands frá 2016 sé lögð áhersla á friðsamlegar lausnir og afvopnun og Ísland tryggi þjóðaröryggi sitt með nánu samstarfi við önnur ríki og ríkjabandalög.

„Áhersla hefur verið lögð á jafnari skiptingu innan Atlantshafsbandalagsins í tengslum við framlög til varnarmála um nokkurt skeið og hafa framlög Íslands farið heldur vaxandi á undanförnum árum.  Í því samhengi er hins vegar mikilvægt að halda því til haga að Ísland starfrækir ekki her og taka framlög Íslands ávallt mið af því í umfangi og eðli. Ísland er herlaus þjóð og nýtur ákveðinnar sérstöðu sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í því tilliti,“ segir í svari Láru. Þessi sérstaða sé vel þekkt og hafi verið viðurkennd frá stofnun Nató.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV