Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Íslendingar eftirbátar í mannréttindamálum

11.06.2016 - 19:51
Nils Muižnieks, Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins
 Mynd: ruv
Íslendingar standa nágrannaþjóðunum að baki þegar alþjóðlegir samningar um mannréttindi eru annars vegar. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins furðar sig á metnaðarleysi Íslendinga.

Nils Muižnieks hefur gegnt embætti mannréttindafulltrúa í fjögur ár og ferðast víða til að ræða um mannréttindi. Hann er á Íslandi í fyrsta sinn og talaði á tveimur fundum á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Utanríkisráðuneytisins.   

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks - hefur enn ekki verið fullgiltur hér á landi. Skrifað var undir hann fyrir níu árum. 164 ríki hafa þegar fullgilt samninginn. 
 

„Næstum allar grannþjóðir ykkar á Norðurlöndum og víðar hafa fullgilt samninginn, þið eruð eilítið á eftir.“
 

„Það vakti athygli mína þegar ég fór yfir gögn forvera míns frá því hann var hér fyrir meira en fjórum árum en hann sagði: Íslendingar hefðu átt að taka upp heildstæða löggjöf gegn mismunun. Þið hafið enn ekki gert það fjórum árum síðar.“

Flest ríki á Norðurlöndum hafa komið á fót mannréttindastofnun sem m.a. sér um rannsóknir og að vekja fólk til vitundar um mannréttindi. Ísland hefur ekki sett á fót slíka stofnun  

„Þið ættuð að koma upp slíkri stofnun. Það yrði framför fyrir þjóðina sem og að koma upp áætlun um aðgerðir í mannréttindum, þar sem litið væri til lengri tíma og skipulega unnið að því að bæta mannréttindi allra á Íslandi.“ 

Flest ríki hafa staðfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og einnig hafa mjög mörg ríki staðfest samning gegn pyndingum. Þið hafið enn ekki staðfest þessa samninga segir Muižnieks 

 
„Og heldur ekki staðfest Istanbúl samþykktina sem miðar að því að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þið eruð því dálítið á eftir grannþjóðum ykkar við að axla þessar alþjóðlegu skuldbindingar. Ég tel Ísland vera auðugt land miðað við mörg þeirra landa sem ég hef komið til. Hér ríkir lýðræði og það á sér langa sögu hér og það kemur mér á óvart að þið hafið ekki sýnt meiri metnað við að axla þessa ábyrgð og stefna að framförum.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV