Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslandsmet í frjókornum á óvenjulegum tíma

24.05.2017 - 22:41
Aldrei hafa mælst hærri frjótölur á Íslandi heldur en á Akureyri um helgina. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar segir afar óvenjulegt að birki og annar gróður blómstri svona mikið á þessum árstíma.

Aldrei mælst meiri frjókorn á einum sólahring

Gott veðurfar síðasta sumar og haust, sem og afar mildur vetur, hefur meðal annars gert það að verkum að gróðurinn er óvenjusnemma á ferðinni þetta vorið. Nú er hámark blómsturtíðar birkisins og frjóin eftir því. Frjótölur birkifrjókorna á Akureyri mældust 658 á sunnudag og er það allra hæsta frjótala sem mælst hefur á einum sólarhring á Íslandi.

Hretið hafði engin áhrif

Til samanburðar var frjótala birkisins 184 á laugardeginum og 73 á föstudeginum, samkvæmt tölum frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur mælt frjótölur á Akureyri síðan 1998. Hretið sem herjaði á landið fyrir tveimur vikum virðist engin áhrif hafa haft.

Byggir á góðu hausti, góðum vetri og góðu vori

Ingólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, segir að blómstrun svo snemma að sumri sé afar óvenjulegt. 

„Þetta byggir á ofsalega góðu hausti síðast, góður vetur og síðan hefur þetta vor verið áfallalaust. Þannig að hér verður blómskrúð í hverjum garði fyrr en varir,” segir Ingólfur. 

Ekki mikill munur á Norðurlandi og Suðurlandi

Alla jafna er gróðurinn á Norðurlandi mun seinni að taka við sér heldur en sunnantil á landinu, en það virðist ekki vera tilfellið nú. Tré, runnar og blóm eru mörg hver farin að blómstra og komin mjög langt. 

„Mjög langt. Ég get tekið sem dæmi sem runnar sem ég hef fylgst með og hafa blómstrað, ég er svo ánægður með að þeir hafa blómstrað 17 júní ár hvert, hingað til, að þeir verða í fullum blóma eftir tvo daga núna,” segir Ingólfur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri  - RÚV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV