Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Íslandsbanki verði ríkisbanki

20.10.2015 - 05:22
Höfuðstöðvar Íslandsbanka
Ríkið eignast 95 prósent hlut í bankanum nái tillögur fram að ganga. Mynd: RÚV
Kröfuhafar Glitnis vilja afsala öllu hlutafé Glitnis í Íslandsbanka hf til stjórnvalda sem hluta af stöðugleikaframlagi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birt var í nótt.

Með tillögu slitastjórnar Glitnis, sem barst ráðuneytinu með bréfi í gær, leggja kröfuhafar þetta til. Ríkið eignast þar með Íslandsbanka að fullu.  Eignarhluturinn er allt hlutafé ISB Holdings í Íslandsbanka, sem er 95% hlutafjár Íslandsbanka hf.  Eigið fé bankans nam um 185 milljörðum króna í lok júní á þessu ári. Vegna breytingatillögu kröfuhafa falla þættir úr fyrri tillögum þeirra niður. Svo sem afkomuskiptasamningur um arðsemi hlutafjár Íslandsbanka, skilyrt skuldabréf að fjárhæð 119 milljarða króna, 16 milljarða króna arðgreiðsla Íslandsbanka í erlendum gjaldeyri auk annarra fyrirhugaðra arðgreiðslna.

Á vefsíðu ráðuneytisins segir að framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta telji þessar aðgerðir falla að stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Verði tillögurnar að veruleika, er það mat framkvæmdahópsins að forsendur séu fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum.

Tilkynning Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.