Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ísland viðkomustaður löngu fyrir landnám

30.09.2013 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er mjög líklegt að fólk hafi lagt leið sína til Íslands mun fyrr en seint á níundu öld, segir Orri Vésteinsson prófessor í fornleifafræði. En haldgóðar vísbendingar um búsetu á Íslandi fyrir þann tíma eru ekki fyrir hendi.

Páll Theódórsson eðlisfræðingur segir annað, hann telur að menn hafi sest að á Íslandi einni til tveimur öldum fyrr, að landnám hafi byrjað á sjöundu eða áttundu öld. Fornleifafræðingar hafa fáu svarað Páli þegar hann hefur bent á viðarkolamælingar sínar en telja þær fjarri því að segja alla söguna. Rætt var við Pál í Speglinum á föstudaginn var. Í dag er rætt við dr. Orra Vésteinsson prófessor í fornleifafræði sem segir að haldbærar vísbendingar um að menn hafi byrjað búskap og numið hér land fyrr en í lok níundu aldar séu ekki til eða hafi enn ekki fundist. Orri segir einnig að ekkert sérstakt bendi til þess að fólk hafi sest að á Íslandi fyrir 870 eða þar um bil en góðar almennar líkur séu á að fólk hafi oft komið til Íslands og horfið þaðan aftur. Menn eigi að leita svara við því hvers vegna fólk hafi komið til Íslands á níundu öld til að hefja hér búskap sem var frá upphafi minniháttar miðað við það sem tíðkaðist í nágrannalöndunum. Meira um landnámið í Spegli dagsins.