Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ísland upp um 21 sæti á næsta FIFA lista

Mynd með færslu
 Mynd:

Ísland upp um 21 sæti á næsta FIFA lista

19.09.2012 - 13:44
Karlalandslið Íslands fer upp í 97. sæti styrkleikalista FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, þegar næsti listi verður gefinn út þann 3. október n.k.

Þetta verður niðurstaðan ef marka má hollenska tölfræðivefinn football-rankings.info sem reiknar reglulega út FIFA listann fyrirfram.

Þetta verður hæsta staða Íslands á listanum frá því í ágúst 2010. Ísland var þá í 79. sæti en féll niður í 100. sæti mánuði síðar. Síðan þá hefur Ísland ekki komist inn á topp 100 og fór neðst í 131. sæti. Ísland er nú í 118. sæti.

Það er 2-0 sigurinn á Norðmönnum í undankeppni HM sem lyftir Íslandi svo hátt upp listann að þessu sinni. Þrátt fyrir tapið gegn Kýpur stekkur Ísland upp um 21 sæti.

Af hinum þjóðunum í riðli Íslands í undankeppninni fer Noregur upp um 8 sæti í 26, Kýpur fer upp um 29 sæti í 106, Albanía stendur í stað í sæti 84, Slóvenía fellur úr 24. niður í 35. sæti eftir tap í fyrstu tveimur leikjum sínum. Svisslendingar sem unnu báða sína leiki fara upp um 6 sæti, úr 20 í 14.

Ísland hefur hæst náð 37. sæti á styrkleikalista FIFA, í september 1994.