Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ísland þurfi að kaupa losunarheimildir

20.10.2017 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allt stefnir í að losun gróðurhúsalofttegunda fari fram úr heimildum Íslands samkvæmt Kyoto bókuninni. Forstjóri Umhverfisstofnunar segir að annaðhvort þurfi að kaupa auknar heimildir eða draga hratt og verulega úr losun sem virðist illmögulegt.

Loftslagsmál eru til umræðu á umhverfisþingi í Hörpu í dag. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að viðbúið sé að Ísland fari fram úr heimildum á losun gróðurhúsalofttegunda miðað við skuldbindingar landsins samkvæmt Kyoto bókuninni.

„Það má segja það að það líti ekki nægilega vel út. Við erum líklegast að fara yfir þær losunarheimildir og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist á svokölluðu Kyoto 2 tímabili sem er tímabili 2013 til 2020. Við erum komin með raunlosunartölur fyrir árin 2013 til 2015. Á grunni þeirra erum við að framreikna okkur. Miðað við þær tölur lítur út fyrir það að við þurfum annað hvort að draga mjög hratt og verulega úr losun, sem er raunverulega illa mögulegt, eða kaupa heimildir,“ segir Kristín Linda.

Nánar verður sagt frá þessu í sjónvarpsfréttum í kvöld.