Ísland þarf að ná 29% samdrætti

30.11.2018 - 21:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ísland mun þurfa að ná 29 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 2005. Þetta er niðurstaða samkomulags milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar.

Ísland og Noregur taka þátt í sameiginlegum markmiðum Evrópusambandsins um losun gróðurhúsalofttegunda undir Parísarsamkomulaginu. Sameiginlegt markmið ESB er að minnka losun um 40 prósent árið 2030 miðað við árið 1990 og vildi Ísland taka þátt í markmiðunum með þeim fyrirvara að Ísland þyrfti að myndi taka á sig réttlátan hluta ábyrgðarinnar. Sú réttláta ábyrgð, eins og það var kynnt í markmiðum Íslands er 29 prósent.

Íslensk stjórnvöld munu þrátt fyrir það stefna að 40 prósent samdrætti útblásturs líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum.

29 prósent samdráttur í losun þarf að nást í þeim geirum sem falla utan viðskiptakerfis Evrópu með losunarheimildir. Í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að krafa á Ísland væri hærri ef eingöngu væri litið til landsframleiðslu á mann. „Ísland telst hafa þrengri stöðu en mörg önnur ríki varðandi hagkvæma kosti til að minnka losun.“

Ekki hefur verið gengið frá öllum laga- og tæknilegum atriðum varðandi Ísland og Noreg. Skuldbindingar Íslands munu falla undir tveggja stoða kerfið; Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn munu, ef drög samkomulagsins verða óbreytt, sjá um framfylgd reglna gagnvart ríkjunum tveimur.