Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísland taki Senegal sér til fyrirmyndar

08.12.2017 - 15:00
Mynd: Facebook/Wikimedia commons / Facebook/Wikimedia commons
„Konur eiga bara að vera þær sjálfar og berjast fyrir því sem þær hafa trú á, þær þurfa ekki að haga sér í samræmi við staðalímyndir og þær þurfa ekki að vera eins og karlar heldur.“ Þetta segir Aminata Touré, fyrrverandi forsætisráðherra Senegal. Hún segir Ísland geta tekið sér Senegal til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Spegillinn hitti Touré  í síðustu viku en hún kom hingað til þess að taka þátt í alþjóðlegu þingi kvenleiðtoga.

Fótboltakona sem sendi son forsetans í steininn

Touré státar af löngum og fjölbreyttum ferli. Á yngri árum spilaði hún fótbolta með Dakar Gasellunum. Hún lærði í Frakklandi, barðist fyrir réttindum kvenna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, einkum þeim réttindum sem lúta að því að stýra eigin barneignum. Sem dómsmálaráðherra tók hún spillingarmál föstum tökum, herferð hennar varð meðal annars til þess að sonur fyrrverandi forseta landsins var sendur í steininn. Touré var önnur konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Senegal. Hún leiddi ríkisstjórnina þó einungis í tæpt ár, frá 2013 til 2014, var bolað burt eftir kosningar þar sem flokkur hennar tapaði miklu fylgi. 

Fékk járnfrúarstimpilinn

Fjölmiðlar kölluðu hana járnfrúna og hún segist hafa fundið fyrir því á ferlinum að hún er kona. Karlkyns andstæðingar kvenna í pólitík beini alltaf sjónum að kyni þeirra, saki þær jafnvel um að sinna ekki börnum sínum og fjölskyldu, þeir geri ráð fyrir að konur séu blíðar og bregðist illa við, standi þær fast á sínu. „Þá fái þær járnfrúarstimpilinn en það er enginn úr járni, hvorki konur né karlar,“ segir Touré.  

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook/Wikimedia commons
Í sviðsljósinu.

Konur mættu styðja hver aðra meira

„Við eigum að hvetja konur til þess að vera þær sjálfar og berjast fyrir því sem þær hafa trú á - og þær þurfa ekki að vera eins og karlar heldur,“ segir Touré.  Þá segir hún konur þurfa að styðja hver aðra meira. Konur geti verið konum verstar. Loks þurfi að breyta þeirri mynd sem birtist af konum í fjölmiðlum, svo ungar stúlkur verði áhugasamari um að taka að sér leiðtogahlutverk og taka þátt í stjórnmálum. 

Konur praktískari en karlar

Í huga Touré er það sjálfsögð krafa að konur og karlar haldi jafnt um stjórnartaumana. Þá segir hún aðkomu kvenna jákvæða, þeim fylgi annars konar áherslur.

„Ég trúi því að konur séu praktískari en karlar, að þær hugsi meira um hagsmuni heildarinnar, við sjáum um fjölskyldur og vitum hvernig á að miðla málum.“ 

Nær jöfn hlutföll á þingi

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Senegalska þingið.

Hún segir að í Senegal hafi orðið miklar framfarir. Í Senegal eru konur 48% þingmanna, Rúanda leiðir á heimsvísu, þar er hlutfall kvenna 49%. Afríkuríki eru raunar áberandi á listum yfir þau ríki þar sem hlutfall kvenna á þingi er hæst, minna fer fyrir Evrópuríkjum.  En hvað getur Ísland lært af Senegal. Touré þarf ekki að hugsa sig lengi um.

„Þið ættuð að setja lög um jöfn kynjahlutföll á þingi og í öllum stofnunum og ráðum þar sem eru kjörnir eða pólitískt skipaðir fulltrúar.“

Hún segir að breytingar gerist hægt og lagasetning sé árangursríkasta leiðin til að hraða þeim. Í Senegal tóku slík lög gildi árið 2010, ekki voru allir sáttir, sumir töldu lögin brjóta gegn stjórnskipulegum hefðum. Í næstu kosningum, árið 2012 kom metfjöldi kvenna inn á þing, 65 konur. Touré telur að helst þyrfti þetta líka að gilda í stjórnum stórra fyrirtækja. En kvótar eru ekki nóg, það þarf líka að breyta karllægri menningu.

Viðkvæmt að storka yfirráðum eiginmanns

Guardian fjallaði um kosningarnar árið 2012, þar kom fram að franska orðið parité hefði kannski jákvæða merkingu í borginni en í þorpum úti á landi væri merking þess neikvæð, þýðir að konur viðurkenni ekki lengur yfirráð eiginmannsins og það er viðkvæmt. Þingmaður sem rætt var við sagðist þurfa að forgangsraða þegar kæmi að áherslum hennar í málefnum kvenna, hún væri til dæmis á móti fjölkvæni, en með því að berjast gegn því gæti hún fengið margar konur upp á móti sér, því legði hún áherslu á það sem skipti fjöldann mestu máli, atvinnu- og heilbrigðismál til dæmis. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Í Dakar.

Konur giftast ungar og eiga ekki eignir

En hvað hamlar helst konum í Senegal? Touré nefnir hefð fyrir því að stúlkur giftist 17 eða 18 ára gamlar, einkum á landsbyggðinni, og hætti í kjölfarið í framhaldsskóla. Þetta sé þó að breytast, hlutfall kvenna að hækka bæði á framhaldsskólastiginu og háskólastiginu. Þá eigi kvenkyns frumkvöðlar erfitt með að fá lán því þær eigi sjaldnast eignir til að veðsetja. Stjórnvöld hafa brugðist við þessu með því að stofna ábyrgðarsjóð sem konur geta sótt í. Þau hafa líka ráðist í almennar aðgerðir til að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki, um 40% íbúa vinna hjá slíkum fyrirtækjum en þau eru oft skammlíf því fjármagn skortir. 

Opið samfélag konum til framdráttar

Touré segir að samfélagið í Senegal sé opið og umburðarlynt. Þar eru töluð fjölmörg tungumál og uppruni íbúa er fjölbreyttur. Um 95% íbúa eru múslimar en það er algengt að fjölskyldur séu blandaðar. Þannig var fyrsti forseti landsins kristinn og sá næsti múslimi giftur kaþólikka. Þessi eiginleiki senegalsks samfélags er konum til framdráttar að mati Touré. í Senegal hafi alltaf verið sterkar konur og í gamla daga hafi drottningar ríkt í mörgum landshlutum, leiðin liggi bara upp á við, konur séu að styrkjast.  

Image was captured by a camera suspended by a kite line. Kite Aerial Photography (KAP)
 Mynd: Wikimedia commons
Dakar.

Pabbi helsta fyrirmyndin

Touré er fædd árið 1962 og þegar hún var að alast upp voru afar fáar konur á þingi í Senegal. Faðir hennar var læknir, móðir hennar ljósmóðir. Hún á fimm systur og tvo bræður. En hver hvatti hana áfram? Hver var hennar fyrirmynd? Hún nefnir föður sinn, hann hafi hvatt hana og systur hennar til dáða, sagt þeim að þær væru jafnar bræðrunum, stæðu sig betur í skóla og ættu að stefna hátt. Þá hafi móðir hennar verið sterk kona og amma hennar verið kaupsýslukona.

„Ég ólst því upp við að sjá konur láta að sér kveða og hrinda hindrunum úr vegi. Það efldi mitt sjálfstraust og ég reyni að miðla því sjálfstrausti áfram til næstu kynslóðar,“

segir Touré. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV