Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ísland taki afstöðu vegna Gaza

Mynd með færslu
 Mynd:
Varaformaður Samfylkingar segir að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og fordæma blóðbaðið á Gaza. Utanríkisráðherra telur að alþjóðasamfélagið þurfi að bregðast við.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar segir að Ísland ætti að taka formlega afstöðu vegna ástandsins á Gaza. Katrín bendir á að þar sem Ísland hafi viðurkennt sjálfstæði Palestínu, beri stjórnvöldum að styðja palestínsku þjóðina í þeim hörmungum sem hún gangi nú í gegnum. „Það gerum við með því að láta heyra hressilega í okkur á alþjóðavettvangi, og íslensk stjórnvöld eiga gera það. Og ég vil ganga svo langt að segja, að nú sé kominn sá tíma að við eigum að slíta stjórnarsambandi við Ísrael, vegna þess að það sem að við höfum verið að gera hingað til, alþjóðasamfélagið, hefur ekki virkað,“ segir Katrín.

Katrín segir að íslensk stjórnvöld verði að taka afstöðu. „Þarna hefur viðgengist árum og áratugum saman aðskilnaðarstefna af mjög vondri sort, þar sem menn eru beinlínis lokaðir inni, með girðingum og víggirðingum, og við erum að horfa á eina þjóð skammta annarri lönd og lífsgæði, og við eigum ekki að sitja hjá lengur og þegja.“

Alþjóðasamfélagið bregðist við

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er erlendis, en ítrekar það sem fram kom í fréttatilkynningu vegna málsins fyrr í vikunni, að hann fordæmi allt ofbeldi og beitingu vopnavalds á svæðinu. Það sé skýlaus krafa að ísraelsk stjórnvöld stöðvi árásir sínar á Gaza. Báðir deiluaðilar beri ábyrgð og verði að vinna að því að stilla til friðar en ábyrgð Ísraels, sem hafi yfirgnæfandi hernaðarmátt, sé sérstaklega mikil. Yfirlýsing ráðherrans kom fram áður en landhernaður Ísraela og innrás á Gaza hófst.

Ráðherrann birti í dag mynd á Twitter, sem er táknræn fyrir mannfall Palestínumanna á Gaza, og kallar eftir viðbrögðum alþjóðasamfélagsins. Gunnar Bragi segir að haldi þetta áfram geti það grafið undan trúverðugleika alþjóðastofnana og þeirra ríkja sem eiga að geta bundið enda á ástand sem þetta.

[email protected]