Ísland „svolítið á eftir öðrum þjóðum“

21.11.2018 - 20:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Heiðurstengt ofbeldi hefur aukist á Íslandi og Íslendingar eru enn að átta sig á merkjum þess að slíkt viðgangist. Þetta sagði Ásta Kristín Benediktsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, í Kastljósi í kvöld.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Kvennaathvarfið efndu í dag til ráðstefnu þar sem kastljósinu var beint að viðbrögðum vegna nauðungarhjónabanda, heiðurtengds ofbeldis, umskurðs kvenna og annars ofbeldis innan fjölskyldna af erlendum uppruna. Þar voru talin til dæmi frá Noregi og aðgerðir í málaflokknum þar kynntar.

Ásta segir Íslendinga hafa verið að átta sig á þessum málaflokki á undanförnum tveimur árum. „Áður fyrr áttuðum við okkur kannski ekki á því að það færi fram heiðurstengt ofbeldi í fjölskyldum vegna þess að við þekktum ekki merkin. En núna þegar við þekkjum merkin þá eru æ fleiri dæmi að koma upp. Hér í Reykjavík eru dæmin nokkur sem við þekkjum nú þegar.“

Spurð hvernig hægt sé að hjálpa einstaklingum sem verða fyrir heiðurstengdu ofbeldi og þeim sem eru í nauðungarhjónarbandi segir hún samstarf stofnanna skipta miklu máli. „Gríðarlega mikið atriði að stofnanir vinni saman. Lögreglan spilar mjög stórt hlutverk, félagsþjónustan, útlendingastofnun og fleiri þurfa að vinna saman,“ sagði Ásta Kristín.

„Við erum svolítið á eftir öðrum þjóðum. Og við erum það líka í móttöku á flóttafólki. En við erum fullu að læra nýtt og full af vilja til þess.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi