Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísland stendur sig í slagnum við lifrarbólgu

02.11.2017 - 03:10
epa05882998 Protesters carry a mock coffin during a demonstration for the victims of HIV or Hepatitis C virus infected blood preservations, in Berlin, Germany, 01 April 2017. Placard (R) read: 'Yes, I'm still alive.'  EPA/CLEMENS BILAN
„Já ég lifi enn!“ stendur á borða þessara mótmælenda sem báru líkkistu á milli sín í Berlín í apríl á þessu ári. Verið var að mótmæla viðbrögðum yfirvalda við mistökum sem urðu til þess að nokkur fjöldi blóðþega smitaðist af lifrarbólgu C. Mynd: EPA
Einungis níu þeirra 194 ríkja sem í fyrra skuldbundu sig til að vinna að því að uppræta lifrarbólgu fyrir árslok 2030 hafa fylgt því eftir með aðgerðum. Ísland er eitt þessara níu ríkja. Þetta kom fram á heimsráðstefnu um lifrarbólgu sem nú stendur yfir í Brasilíu. Auk Íslands hafa Egyptaland, Ástralía, Holland, Georgía, Þýskaland, Japan, Katar og Brasilía gripið til markvissra aðgerða til að hefta útbreiðslu þessa skæða sjúkdóms, sem talið er að verði 1.3 milljónum manna að aldurtila á ári.

Um 200 sérfræðingar frá 80 ríkjum bera saman bækur sínar um forvarnir, greiningu og meðhöndlun við lifrarbólgu á þriggja daga ráðstefnu í Sao Paulo. Ráðstefnan er haldin í samvinnu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og alþjóðlegra samtaka um málefni sem tengjast lifrarbólgu.

Brýnt að auka aðgengi að nýjum og betri lyfjum

Aðgengi að meðhöndlun var á meðal umræðuefna, en í skýrslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar kemur fram að um 3 milljónir manna, fleiri en nokkru sinni fyrr, hefðu fengið meðferð við lifrarbólgu C á síðustu tveimur árum, og 2,8 milljónir voru meðhöndlaðar vegna lifrarbólgu B árið 2016. Enn fleiri hafa þó engan aðgang að nýjum og byltingarkenndum lyfjum á borð við sofosbuvir og daclatasvir, sem færa fólki bata á 12 vikum í um 95 af hverjum 100 tilfellum.

Alþjóðlegu hjálparsamtökin Læknar án  landamæra segja lausnina felast í breyttri löggjöf um einkaleyfi og samheitalyf. „Ríkisstjórnir verða að beita sér fyrir ódýrari samheitalyfjum með öllum tiltækum ráðum,“ segir Jessica Burry, lyfjafræðingur sem starfar á vegum samtakanna. Hún leggur til að ríkisstjórnir gefi út einhliða leyfi til framleiðslu á samheitalyfjum lífsnauðsynlegra læknisdóma ef einkaleyfishafar þeirra neita að veita samþykki sitt.

Um 325 milljón lifrarbólgutilfelli eru staðfest á ári að meðaltali. Þar af smitast um 33 milljónir af lifrarbólgu B og 65 milljónir af lifrarbólgu C, en þetta eru hættulegustu afbrigði veirusjúkdómsins. 

Góður árangur hér á landi

Hér á landi hófst opinbert átak gegn lifrarbólgu C í ársbyrjun 2016. Helstu samstarfsaðilar í því átaki eru Landspítalinn og sjúkrahúsið Vogur, en sóttvarnarlæknir hefur yfirumsjón með framkvæmd þess. Í frétt frá Landspítalanum hinn 19. september síðastliðinn segir að góður árangur hafi náðst í átakinu. Um 600 einstaklingar, eða á bilinu 60 - 70 prósent þeirra sem taldir eru smitaðir hér á landi, hafi byrjað lyfjameðferð síðan átakið hófst. Á fyrsta starfsárinu hafi um 95 prósent þeirra sem kláruðu meðferðina læknast.