Um 200 sérfræðingar frá 80 ríkjum bera saman bækur sínar um forvarnir, greiningu og meðhöndlun við lifrarbólgu á þriggja daga ráðstefnu í Sao Paulo. Ráðstefnan er haldin í samvinnu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og alþjóðlegra samtaka um málefni sem tengjast lifrarbólgu.
Brýnt að auka aðgengi að nýjum og betri lyfjum
Aðgengi að meðhöndlun var á meðal umræðuefna, en í skýrslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar kemur fram að um 3 milljónir manna, fleiri en nokkru sinni fyrr, hefðu fengið meðferð við lifrarbólgu C á síðustu tveimur árum, og 2,8 milljónir voru meðhöndlaðar vegna lifrarbólgu B árið 2016. Enn fleiri hafa þó engan aðgang að nýjum og byltingarkenndum lyfjum á borð við sofosbuvir og daclatasvir, sem færa fólki bata á 12 vikum í um 95 af hverjum 100 tilfellum.
Alþjóðlegu hjálparsamtökin Læknar án landamæra segja lausnina felast í breyttri löggjöf um einkaleyfi og samheitalyf. „Ríkisstjórnir verða að beita sér fyrir ódýrari samheitalyfjum með öllum tiltækum ráðum,“ segir Jessica Burry, lyfjafræðingur sem starfar á vegum samtakanna. Hún leggur til að ríkisstjórnir gefi út einhliða leyfi til framleiðslu á samheitalyfjum lífsnauðsynlegra læknisdóma ef einkaleyfishafar þeirra neita að veita samþykki sitt.
Um 325 milljón lifrarbólgutilfelli eru staðfest á ári að meðaltali. Þar af smitast um 33 milljónir af lifrarbólgu B og 65 milljónir af lifrarbólgu C, en þetta eru hættulegustu afbrigði veirusjúkdómsins.
Góður árangur hér á landi
Hér á landi hófst opinbert átak gegn lifrarbólgu C í ársbyrjun 2016. Helstu samstarfsaðilar í því átaki eru Landspítalinn og sjúkrahúsið Vogur, en sóttvarnarlæknir hefur yfirumsjón með framkvæmd þess. Í frétt frá Landspítalanum hinn 19. september síðastliðinn segir að góður árangur hafi náðst í átakinu. Um 600 einstaklingar, eða á bilinu 60 - 70 prósent þeirra sem taldir eru smitaðir hér á landi, hafi byrjað lyfjameðferð síðan átakið hófst. Á fyrsta starfsárinu hafi um 95 prósent þeirra sem kláruðu meðferðina læknast.