Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísland stendur sig enn verst EES-ríkja

15.07.2016 - 10:25
Eftirlitsstofnun EFTA
Bygging EFTA í Brussel. Mynd: EFTA
Ísland stendur sig verst allra EES-ríkjanna í að innleiða tilskipanir sem ríkin hafa skuldbundið sig til að leiða í lög innan tímamarka og ekki í fyrsta skipti. Þetta er niðurstaða frammistöðumats innri markaðs ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Forstjóri ESA segir að það getihaft alvarlegar afleiðingar í för með sér dragi stjórnvöld það of lengi að innleiða tilskipanir, íslenskum fyrirækjum gæti til dæmis verið synjað um aðgang að innri markaði EES-ríkjanna.

Norðmenn bera af 

Innleiðingarhalli Íslands er 1,8%. Meðalinnleiðingarhalli ríkjanna, sem eru 31 talsins, er 0,7%. Í Noregi, því ríki sem stendur sig best, er hann núll. Sven Erik Svedman, forseti ESA, segir ljóst að íslensk stjórnvöld þurfi að gera mun betur, það sé þeim sjálfum til hagsbóta þar sem innri markaðurinn gagnist bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Innleiðing sameiginlegra reglna á réttum tíma sé forsenda þess að innri markaðurinn virki vel og því mikilvægt að ríkin standi við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum ríkjum EES-svæðisins.

Alvarlegar afleiðingar

Svedman segist í nýlegri ferð sinni til Íslands hafa orðið var við vilja til úrbóta meðal íslenskra stjórnmálamanna og segist vona að þeir nýti hann til að tryggja að Ísland verði ekki eftirbátur annarra. Það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér dragi stjórnvöld það of lengi að innleiða tilskipanir, íslenskum fyrirækjum gæti til dæmis verið synjað um aðgang að innri markaðinum. Fram kemur að því lengur sem innleiðing dregst því alvarlegri geti afleiðingarnar orðið. 

Lyf og læknisþjónusta

Tilskipanirnar sem Ísland hefur dregið að innleiða eru 16 talsins og í tilkynningu frá ESA segir að sumar þeirra varði mikilvæg réttindi almennings. Vísað er til tilskipunar frá 2011 um aukið eftirlit með framleiðendum lyfja til að sporna gegn viðskiptum með fölsuð lyf en dæmi eru um það í Evrópu að fölsuð lyf séu seld sem venjuleg, þau geta verið skaðleg, innihaldið röng efni eða ranga skammta af virkum efnum. Sömuleiðis tilskipunar frá 2011 sem auðveldar sjúklingum að nýta sér heilbrigðisþjónustu innan EES-svæðisins og fá kostnað við slíka þjónustu endurgreidda frá ríkinu.

Innleiðingarhalli reglugerða aukist en halli tilskipana dregist saman

Innleiðingarhalli reglugerða hefur aukist frá síðasta mati. Í maí í fyrra voru 22 reglugerðir sem íslensk stjórnvöld höfðu ekki innleitt en í nóvember voru þær orðnar 34. Þá biðu sjö mál gegn Íslandi afgreiðslu EFTA-dómstólsins í desember 2015 en í maí sama ár voru þau þrjú. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að dregið hafi úr innleiðingarhalla Íslands frá síðasta mati sem fram fór í október í fyrra, þá var innleiðingarhallinn 2,1%. Fram kemur að Ísland hafi stöðugt verið að bæta sig, síðastliðin ár, þegar kemur að innleiðingum tilskipana. Hallinn hafi numið 3,1% í apríl árið 2014.

Gera þurfi enn betur

Þó sé ljóst að gera þurfi betur þar sem miðað sé við að innleiðingarhalli hjá ríkum á evrópska efnahagssvæðinu sé ekki umfram 1%. Unnið sé að því markmiði að ná hallanum niður fyrir prósentið á grundvelli Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. 

Frammistöðumatið er birt tvisvar á ári og sýnir hvernig stjórnvöldum á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi gengur að innleiða tilskipanir og reglugerðir innri markaðarins. Matið tekur því til stöðunnar eins og hún var hér á landi í lok október í fyrra. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV