Ísland skrifað út úr Game of Thrones

02.07.2014 - 14:30
Game Of Thrones, Series 3
EP301

Featuring Kit Harrington as Jon Snow

© HBO Enterprises
 Mynd:
Ísland kemur ekki við sögu nema að mjög litlu leyti í fimmtu þáttaröð bandarísku sjónvarpsþáttanna Game of Thrones. Engir leikarar eru væntanlegir heldur kemur hingað fámennt tökulið til að taka myndir af landslagi sem síðan verður notað í þáttunum.

Þetta staðfestir Snorri Þórisson, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Pegasus, í samtali við fréttastofu. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að hér yrði meðal annars myndað stórt bardagaatriði og áttu tökur að hefjast í nóvember.

Að sögn Snorra varð atriðið alltaf stærra og stærra í handritinu og að lokum var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hagkvæmt að gera það hér í ljósi þess að í nóvember væri aðeins nothæf birta í fimm klukkustundir. Snorri segir að þrátt fyrir þetta hafi aðstandendur Game of Thrones ekki misst áhugann á Íslandi, ekki sé því útilokað að það muni endurnýja kynnin síðar. „Þetta er ekki áfall,“ segir Snorri. „Maður er ekki með áskrift að svona.“

Starfsmenn Game of Thrones hafa verið fastagestir hér síðastliðin þrjú ár. Fyrstu upptökurnar fóru fram við Svínafellsjökul og í annað skiptið var Norðurland fyrir valinu. Síðasta sumar voru svo mjög umfangsmiklar upptökur á Suðurlandi, meðal annars á Þingvöllum.

Leikarar þáttanna hafa tjáð sig mikið um dvölina á Íslandi í erlendum fjölmiðlum og hingað til lands hafa verið skipulagðar ferðir til að skoða tökustaði. Þá er skemmst að minnast þess að í fjórðu þáttaröðinni lék íslenska hljómsveitin Sigur Rós lítið hlutverk auk þess sem Hafsteinn Júlíus Björnsson sló eftirminnilega í gegn sem ómennið Fjallið.  

Tökulið þáttanna hefur varið 825 milljónum hér á landi í þau þrjú skipti sem það hefur hingað komið samkvæmt yfirliti yfir endurgreiðslur til kvikmyndaverkefna.

 [email protected]