Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ísland réð ekki við Perú - sjáðu öll mörkin

Mynd: EPA / EPA

Ísland réð ekki við Perú - sjáðu öll mörkin

28.03.2018 - 02:37
Perú vann sannfærandi sigur á Íslandi í vináttulandsleik karla í fótbolta í New Jersey í kvöld, 3-1.

Renato Tapia kom Perú yfir eftir tvær mínútur en Jón Guðni Fjóluson jafnaði metin á 22. mínútu með sínu fyrsta landsliðsmarki. Staðan í leikhléi var 1-1.

Marga lykilmenn vantaði í lið Íslands en leikur íslenska liðsins hrundi í seinni hálfleik. Þá tóku Perúmenn öll völd á vellinum og skoruðu tvö mörk og unnu að lokum öruggan 3-1 sigur.

Jóhann Berg Guðmundsson, liðsmaður Burnley, þurfti að fara af velli vegna meiðsla í seinni hálfleik.

Ekki búinn að ákveða lokahópinn

Heimir Hallgrímsson var ekki sáttur við spilamennsku liðsins en benti á styrkleika Perú eftir leik. „Ætli þeir hafi ekki bara verið númeri of stórir fyrir okkur að þessu sinni. Saga leiksins var svolítið að við náðum ekki að klukka þá,“ sagði Heimir sem er ekki búinn að ákveða lokahópinn fyrir HM. 

„Auðvitað höfum við ákveðnar hugmyndir, en nei, við erum ekki búnir að ákveða lokahópinn.“

Sjáðu mörkin úr leiknum og allt viðtalið við Heimi í spilaranum hér að ofan.