Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ísland langefst á lista yfir deilihagkerfi

07.08.2018 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ísland er langefst á nýjum lista þar sem löndum er raðað eftir umfangi deilihagkerfis. Timbro, sænsk samtök um frjálsan markað og einstaklingsfrelsi, standa að samantektinni og nota til þess nýja vísitölu um deilihagkerfi. Airbnb hefur mikil áhrif á stöðu Íslands. Smáríkin Turks- og Caicoseyjar, Malta, Svartfjallaland og Nýja-Sjáland eru efst á listanum, á eftir Íslandi. Efstu ríkin eiga það sammerkt að netþjónusta er góð og ferðaþjónusta skipar veigamikinn sess í atvinnulífinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Timbro.

Airbnb skýrir stöðu Íslands

Saga deilihagkerfisins er samtvinnuð fyrirtækjum á borð við Airbnb en vöxtur og viðgangur heimagistiþjónustunnar hér á landi skýrir mikið umfang deilihagkerfisins í skýrslu Timbro. Þetta segir Gylfi Ólafsson, hagfræðingur sem á þátt í skýrslunni. „Upprunalega lá sú hugsun að baki deilihagkerfinu að fólk gæti nýtt vannýttar fjárfestingar sínar. Þannig gætir þú leigt út fasteignina þína með þjónustu á borð við Airbnb þegar þú værir ekki að nota hana, eða bílinn með þjónustu eins og Uber,“ útskýrir Gylfi.

Ólíkt því sem deilihagkerfið átti að ganga út á

Hins vegar sé raunin sú að fæstir noti Airbnb til að leigja út heimili sitt þegar það stendur autt „eins og deilihagkerfið átti að ganga út á,“ segir Gylfi. Í flestum tilfellum séu íbúðir gagnert gerðar út á leigumarkaði. „Þetta hefur þróast út í það sem á ensku kallast „gig economy“ eða hagkerfi sem byggir á skammtímaverkefnum. Þetta styrkir eignafólk, millistétt og efri millistétt eða alla þá sem geta gert út fasteign aðra en heimili sitt.“

Hann segir þó að Airbnb virki líka sem öryggisventill eins og raunin hefur verið hér á landi. „Vöxtur ferðaþjónustu var svo gríðarlega hraður hérna að hótelbyggingar héldu ekki í við þróunina. Airbnb gat annað þeirri umframeftirspurn,“ segir hann. Þannig hafi deilihagkerfið hlaupið í skarðið þar sem þörf var á.

Miklum tekjum stungið undan skatti

Skýrsluhöfundar segja að vísitala um umfang deilihagkerfis skýrist af sömu þáttum og skýra stærð hagkerfa almennt, þvert á upphaflega kenningu rannsakenda um að deilihagkerfið yxi að stórum hluta til að komast hjá regluverki. „Að vísu segi ég í kaflanum mínum, sem fjallar aðallega um Ísland, að skattsvik hafi verið stórt vandamál í deilihagkerfinu,“ segir Gylfi. Þannig hafi bæði ríkisskattstjóri og Samtök ferðaþjónustunnar lýst yfir áhyggjum af því að miklum tekjum af Airbnb sé stungið undan skatti.

Vísitalan, sem heitir á ensku „Timbro S­har­ing Economy Index,“ byggir meðal annars á mælingum á vefumferð í 213 löndum þar sem rúmlega 4600 fyrirtæki voru tekin fyrir. Aðal­höf­undur skýrsl­unnar er sænski hag­fræð­ing­ur­inn Alex­and­er Funcke hjá háskól­anum í Penn­syl­van­íu. Meðal ríkja sem voru neðarlega á lista má nefna Erítreu, Lúxemborg og Norður-Kóreu.

Mynd með færslu
 Mynd: Viðreisn
Gylfi Ólafsson hagfræðingur kom að skýrslunni.