Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ísland hrapar um 10 sæti á nýsköpunarlista

24.11.2018 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland hefur fallið um tíu sæti á lista yfir stöðu nýsköpunar í ríkjum heims. Eftir að hafa verið í 13. sæti í þrjú ár er Ísland nú í því 23. samkvæmt alþjóðlegri skýrslu. Skýrslan Global Innovation Index er gefin út árlega. Cornell háskóli, Alþjóðahugverkastofnunin og viðskiptaháskólinn INSEAD standa að útgáfunni.

Í skýrslunni er ríkjum raðað eftir því hve framarlega þau standa í nýsköpun. Sviss trónir á toppnum og önnur Norðurlönd eru ofar en Ísland. Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, doktor í líf- og læknavísindum og frumkvöðull, greindi frá niðurstöðunum í erindi í fyrirlestrarröð um hagnýtingu hugvitsins í Háskóla Íslands í vikunni.

„Það er mjög erfitt að segja hver væri bein skýring á þessu. Það er mjög margt sem er tekið inn í þetta index en ég held að samkeppnin á alþjóðavísu, þegar kemur að nýsköpun, sé að aukast verulega. Allar aðrar þjóðir í kringum okkur vilja líka vera góðar í nýsköpun. Þær eru bara einfaldlega að hlaupa hraðar en við,“ segir Sandra Mjöll.

Mynd með færslu
 Mynd:
Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, doktor í líf- og læknavísindum og frumkvöðull.

Sandra á von á að Ísland verði ofar á listanum að ári. Frumvarp um aukinn stuðning við nýsköpun liggi fyrir Alþingi og meira fjármagn fari til sprotafyrirtækja. „Fyrir Ísland skiptir það sérstaklega miklu máli upp á að auka fjölbreytni í atvinnugreinum. Þannig að við séum ekki að stóla algjörlega á örfáar atvinnugreinar heldur að dreifa áhættunni á fleiri. Þannig að ef það kæmi hrun í einni atvinnugrein þá færi Ísland ekki á hliðina.“