Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísland grafreitur alþjóðlegra skyndibitakeðja

17.10.2019 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur hálfdánardóttir
Flatbökusjúkir Íslendingar sem reiða sig á þriðjudagstilboð Dominos geta andað léttar. Það verða engar truflanir á rekstri skyndibitakeðjunnar þó að breski eigandinn hyggist selja starfsemina á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð.  Spegililnn hitti Birgi Örn Birgisson, forstjóra keðjunnar hér, á Dómínos í Skeifunni. 

Það vinna tæplega 800 manns hjá Dominos á Íslandi en forstjórinn hefur gantast með að starfskýrnar séu fleiri, rúmlega þúsund kýr framleiði ost ofan á pizzurnar. Fyrsti staðurinn opnaði við Grensásveg í Reykjavík árið 1993, nú, tæpum aldarfjórðungi síðar eru staðirnir orðnir 25 og eru víða um land.

Það eru ekki margar stórar, alþjóðlegar keðjur sem gera það gott hér. Subway hefur auðvitað sterka stöðu, KFC líka. Íslendingar eru oft sagðir svolítið amerískir í háttum þegar kemur að skyndibita en samt gefast margar keðjur upp á okkur. Birgir segir Ísland hafa reynst alþjóðlegum keðjum erfiður markaður. „Þetta hefur verið ákveðinn grafreitur fyrir alþjóðlegar skyndibitakeðjur, meira en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, dæmin eru eiginlega endalaus. McDonalds, Burger King, Papa john's, Krispy kreme, Dunkin' donuts. Þetta eru engin smá nöfn og ekkert smá veldi en þeir hafa ekki náð að klára dæmið hér. Ástæðan er margþætt, þetta er erfiður vinnumarkaður, við erum með miklar sveiflur í íslensku hagkerfi og ég held kannski að það sé erfitt fyrir stórar keðjur að aðlaga sig að því.“ 

Hann segir að Dominos hafi komið inn á markaðinn á réttum tíma, látið sig hafa sveiflurnar. Fyrirtækinu hafi tekist að vera samkeppnishæft og halda stöðugleika í gæðum, þess vegna lifi það af. 

Alþjóðlegir markaðir ollu vonbrigðum

Utan frá séð hefur litið út fyrir að rekstur Dominos gangi vel, fyrirtækið seldi pizzur fyrir sex milljarða í fyrra og hagnaðist um hálfan milljarð. Stjórnendur sögðu í fyrra innistæðu fyrir því að opna sex nýja útsölustaði. Nú eru hræringar. Dominos Pizza group í Bretlandi birti í morgun fréttatilkynningu í tengslum við uppgjör þriðja ársfjórðungs. Þar segir að félagið hyggist selja starfsemi sína á Íslandi, í Svíþjóð, Noregi og Sviss. Í tilkynningunni kemur fram að salan á þessum alþjóðlegu mörkuðum félagsins hafi valdið vonbrigðum. Á Íslandi hafi verið 1% samdráttur milli ára, fækkun ferðamanna hafi þar haft áhrif. 

Kjarasamningar þungir og markaðurinn að mettast

Birgir Örn segir eins prósent samdrátt innan viðmiðunarmarka. Markaðurinn hér hafi verið einn besti markaður Dominos í heiminum og frábær Ebitda, bæði í fyrra og hittífyrra. Hann segir þó að kjarasamningar íþyngi veitingageiranum og það sé að verða ákveðin mettun á þeim markaði. Fyrirtækið eigi eftir að skila góðu uppgjöri í ár en það verði verra en í fyrra. Markaðurinn hafi kólnað. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur hálfdánardóttir
Sögunni gerð skil í útibúi Dominos í Skeifunni í Reykjavík.

„Þetta snýst ekki um Ísland“

Það verða líklega engar truflanir á rekstri Dominos á Ísland, þó að ég geti auðvitað ekki sagt fyrir um náttúruhamfarir eða slíkt. Þetta segir Nina Arnott, upplýsingafulltrúi Dominos Pizza group, sérleyfishafa keðjunnar í Bretlandi. Spegillinn sló á þráðinn til hennar í morgun. Arnott segir að íslenski markaðurinn hafi ekki verið sérstakt vandamál. Þetta snúist í raun ekki um einn markað, Íslendingar elski pizzu, það hafi gengið vel hér. Það eru ekki þið, segir hún það erum við. Þetta snúist um hvað breska félagið telji best fyrir sig, það vilji einbeita sér að breska markaðnum og telji aðra betur til þess fallna að sjá um keðjuna í öðrum löndum, þá helst fólk sem þekki betur til markaðarins á Íslandi og í Skandinavíu. 

Enginn ákveðinn kaupandi í sigtinu

Vinnan við söluferlið er á byrjunarreit og Arnott segir erfitt að segja til um hversu tímafrekt það verður. Mestu skipti að gera þetta vel, halda rekstrinum gangandi og hámarka ávinning hluthafa. 

Hún segir félagið ekki með neinn ákveðinn kaupanda í huga en að líklegast verði öll starfsemin í löndunum þremur seld á einu bretti til einhvers eins kaupanda. Það virðist skynsamlegasta leiðin þó hún viti ekki hvað verði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur hálfdánardóttir

Bieltveldt, banki, Bieldtveldt

Birgir Bieltvedt stofnaði félagið Pizza-pizza árið 1993, félagið var þá umboðsaðili Domino's pizza international á Íslandi. Birgir kom að rekstri þess til 2005. Landsbankinn tók félagið yfir í mars árið 2011 og setti það fljótlega í söluferli, aftur keypti Birgir Bieltvedt auk hóps fjárfesta. Frá þessum tíma hafa bæst við 11 sölustaðir og starfsfólki fjölgað til muna. Birgir Bieltvedt keypti líka sérleyfisréttinn í Noregi og Svíþjóð. Dominos sótti í raun inn á þá markaði frá Íslandi. Árið 2016 keypti breski sérleyfishafinn, Dominos pizza group helmingshlut af Birgi Bieltvedt, með kaupunum fylgdi réttur til að eignast félagið í heild. Í lok árs 2017 losaði Birgir sig við sinn hlut og í ágúst á þessu ári seldu Birgir Örn, forstjóri og Steinar Bragi Sigurðsson, 4,7% hlut sinn í félaginu Pizza pizza. Breski sérleyfishafinn átti þá Dominos hér með húð og hári en nú tveimur mánuðum síðar vill félagið losa sig við allt saman. Ráðgert er að starfsemin hér verði áfram undir merkjum stórfyrirtækisins Dominos. Þeir sem vilja kaupa þurfa því að kaupa bæði starfsemina og sérleyfið fyrir nafninu. Slík leyfi geta verið dýr og svo er ekki víst að íslenskir fjárfestar hafi áhuga á starfseminni í Svíþjóð og Noregi. 

Dominos-skandalen: Rottuskítur og útrunnið álegg

Í mars á þessu ári fór Dominos pizza á hausinn í Danmörku, staðirnir 24 skelltu í lás og fyrir því var ástæða. Fréttamaður TV2 hafði sýnt fram á alvarlegar brotalamir í hreinlætismálum. Hann réð sig til starfa hjá keðjunni og komst að því að útrunnið kjöt var notað á flatbökurnar, álegg var geymt í kössum og ekki fylgst með því hvenær það rann út, já og það var rottuskítur á gólfinu. Það var Dominos-skandalen sem keyrði keðjuna í þrot en ekki fyrir fullt og allt því sérleyfishafinn sem rekur keðjuna í Ástralíu, Japan og Nýja-Sjálandi hefur keypt réttinn í Danmörku og ætlar að rífa starfsemina upp.

Ástralska arminum gengið betur en breska

Ástralski fransjæsinn, hefur verið í sókn í Evrópu, rekur keðjuna í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og Þýskalandi og hefur almennt gengið betur i alþjóðlegri starfsemi en þeim breska. Koma þeir áströlsku kannski inn á markaðinn hér?

„Mér finnst mjög erfitt að spá um það. Þeir eru mjög flott fyrirtæki sem hafa gert góða hluti bæði í Evrópu og Asíu. Þeir hafa mikla þekkingu og reynslu en það eru margir aðrir aðilar sem koma til greina. Eg held þetta séu eftirsóknarverð lönd að kaupa og fá sérleyfi fyrir og Ísland kannski sérstaklega því það hefur gengið vel hér.“

Hann er mjög hæfur í rekstri Dominos

Fjárfestir nafni hans Birgir Bieltvedt kannski aftur í rekstrinum, nú eða hann sjálfur? „Sagan segir okkur að Birgir Bieltvedt hefur komið nokkrum sinnum að borðinu, hann er mjög hæfur í rekstri á Dominos og mér finnst ekkert ólíklegt að hann skoði þetta tækifæri. Ég segi það sama, mér finnst þetta áhugavert tækifæri og svo verður maður bara að sjá hvernig spilin detti á borðið. 

Segir útlit fyrir frekari samþjöppun

Ef allt verður selt saman, hugnast það kaupendum hér? Að kaupa líka upp markaðinn í Noregi og Svíþjóð? 

„Ef þetta verður allt selt í einu lagi finnst mér ólíklegra að íslenskir aðilar komi til leiks en ég útiloka ekkert.“ 

Það er samþjöppun í veitingageiranum, nýlega sameinuðust Foodco og Gleðipinnar, tvö fyrirtæki sem eiga fjölda veitingastaða. Það veldi kaupir kannski bara Dominos? Aftur segist Birgir eiga erfitt með að spá fyrir um framtíðina. „Það er samþjöppun og ég held það sé útlit fyrir meiri samþjöppun. Þetta er harður heimur.“