Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísland fullgilti Parísarsamkomulagið

Mynd með færslu
 Mynd: Hrannar Pétursson
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands hefur afhent Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fullgiltan loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna af hálfu Íslands.

Lilja afhenti Ban skjalið við hátíðlega athöfn á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í hádeginu. Fulltrúar þrjátíu annarra ríkja létu framkvæmdastjórann hafa sambærilegar yfirlýsingar um fullgildingu Parísarsamkomulagsins. Í þeim hópi eru Argentína, Brasilía og Mexíkó - sem öll bera ábyrgð á talsverðri losun gróðurhúsalofttegunda.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd við hátíðlega athöfn í New York í apríl síðastliðnum. Alþingi samþykkti fyrr í þessari viku þingsályktunartillögu utanríksráðherra um að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samkomulagið.

Til að samningurinn öðlist gildi formlega þurfa að fullgilda hann 55 ríki sem láta samtals frá sér meira en 55 prósent af heildarlosun. Fyrir athöfnina í dag höfðu 29 ríki sem saman standa að fjörutíu prósentum losunarinnar fullgilt samninginn. Bandaríkin og Kína hafa þegar fullgilt samkomulagið, en þau eru í hópi þeirra ríkja sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum.