Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ísland er orðið ósamkeppnishæfara“

09.08.2018 - 22:11
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að verðlag á Ísland sé ekki jafn samkeppnishæft við önnur lönd og áður. Þess vegna fækki ferðamönnum. Ferðaþjónustufyrirtæki séu búin að skrúfa niður verð og geti ekki hagrætt meira.

Hægt hefur á fjölgun ferðamanna og þeim fækkar um hátt í 20% frá Mið-Evrópu frá því á sama tíma í fyrra, samkvæmt tölum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ferðamenn sem fréttastofa ræddi við í dag eru sammála um að verðlagið hér á landi sé of hátt. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að markaðssvæðið í Mið-Evrópu sé viðkvæmara fyrir verðhækkunum en önnur.  

„Ísland er orðið ósamkeppnishæfara heldur en það var í verðum á ferðaþjónustu. Þar má skella skuldinni að stórum hluta á gengisþróun og launaþróun undanfarinna ára þar sem kostnaður fyrirtækjanna hefur hækkað gríðarlega mikið. Það þarf að velta kostnaðinum út í verðið eins og hægt er,“ segir Jóhannes.

„Það er mjög erfitt fyrir ferðaþjónustufyrirtæki núna eins og staðan er núna að hagræða mikið til þess að lækka verð. Það er hins vegar verið að skrúfa verð langt niður, eins og hægt er til þess að komast til móts við þessa þróun,“ bætir Jóhannes við.

Jóhannes segir að verðlaginu fylgi breytt ferðahegðun. Svæði sem eru lengra frá Reykjavík verði harðar úti en önnur. „Það eru búin að vera átök í gangi með það að fjölga ferðamönnum á öllum svæðum landsins og líka að minnka árstíðasveiflur, en það er búið að reynast erfiðara en við kannski vonuðum,“ segir Jóhannes.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV