Sarah Schug hefur unnið að ritun bókarinnar undanfarin misseri en hún starfar sem lausapenni fyrir ýmis menningartímarit í Belgíu þar sem hún býr, heldur meðal annars úti menningartímaritinu See you there sem fjallar um belgísku listasenuna á skemmtilegan hátt á netinu.
Eyja listarinnar iðar af lífi
„Áhugi minn á íslensku myndlistarsenunni kviknaði eftir ferðalögin mín hingað,“ segir Sarah sem nú er stödd hér á landi með nýju bókina sína. „Ég fór að rannsaka þessa senu hér á landi og langaði að lesa um hana en fann ekki neitt bitastætt, þannig að ég tók bara að mér að skrifa það. Hugmyndin kom til mín á nokkuð auðveldan og organískan máta en þegar ég fór að vinna að þessu komst ég að því að það eru margar áhugaverðar hliðar á þeirri miklu sköpun sem hér er í gangi. Þetta vatt því upp á sig. Mér fannst merkilegt að maður fær þá tilfinningu að hér sé myndlistin einhvern veginn úti um allt. Fólk er óhrætt við að prófa og sýna hlutina sína. Frelsið er mikið. Margir viðmælenda minna nefna að vegna þess hve listmarkaðurinn hér er lítill þá setji markaðurinn sköpuninni ekki eins strangar skorður og víða erlendis. Einn viðmælenda minna, listamaður sem hafði unnið að list sinni í Los Angeles fannst það í samanburði eins og hann væri að vinna í verksmiðju.“
En sjá viðmælendur Söruh líka þessa miklu sköpunargleði, verandi í henni miðri, eða eru þeir stoltir af henni?
Sarah nefnir að hún hafi verið hér í kringum opnun Marshall-hússins á sínum tíma. „Já, þá kom orðið stolt oft upp í mínum samræðum við þá sem tengdust myndlistarlífinu. Allir voru spenntir og stoltir. Fólk var á því að nú væri myndlistarlífið að verða fullvaxið í Reykjavík, starfsemin úti á Granda væri eitthvað í líkingu við það sem mætti finna í borgum erlendis, Stokkhólmi, Berlín eða víðar. Það vakti líka fyrir mér að koma þessari starfsemi betur á radar erlendis og benda á gæðin sem eru hér í gangi.“