Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ísland ekki lengur í fremstu röð

20.12.2017 - 06:00
Mynd með færslu
Samkvæmt rannsókn SPI þykja réttindindi samkynhneigðra sjálfsagðari hér en víða annarstaðar Mynd: RÚV
Ísland hefur dregist aftur úr nágrannalöndunum hvað varðar málefni hinsegin fólks, samkvæmt regnbogakorti baráttusamtakanna ILGA-Europe. Til stendur að leggja fram framvarp um réttindi hinsegin fólks á næstunni.

Undirbúningur að frumvarpinu hefur staðið yfir í tvö ár. Að sögn Iðunnar Garðarsdóttur, aðstoðarmanns Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, fellur frumvarpið undir málefni margra ráðuneyta. Nú er í skoðun hvaða ráðuneyti fari með málið.

Réttindi hinsegin fólks mest á Möltu

Formaður Samtakanna ´78, ásamt formönnum Intersex Ísland og Trans Ísland höfðu aðkomu að gerð frumvarpsins. „Ísland hefur dregist aftur úr og er núna á svipuðum stað og Ungverjaland, Slóvenía og Grikkland þegar kemur að réttindum hinsegin fólks,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78. Hann bendir á að Ísland uppfylli 47 prósent þeirra skilyrða sem samtökin ILGA-Europe miði við. Noregur er það ríki á Norðurlöndunum þar sem réttindi hinsegin fólks eru mest. Þar hafa 78 prósent skilyrða verið uppfyllt. Á heimsvísu eru réttindi hinsegin fólks mest á Möltu þar sem 88 prósent skilyrða ILGA-Europe hafa verið uppfyllt.

Brýnast að bæta réttindi trans- og intersexfólks 

Daníel segir brýnast að bæta réttindi transfólks og intersexfólks. Hugtakið intersex nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggja á milli staðlaðra hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns, eru sambland af karl- eða kvenkyni eða eru hvorki karl- né kvenkyns. „Manneskja þarf að vera greind geðveik til að fá að fara í það ferli að leiðrétta kyn. Svo þarf fólk að lifa sem kynið sem það upplifir sig í eitt ár áður en kynleiðréttingarferli hefst. Hvað intersex-fólk varðar þá mega læknar enn þann dag í dag gera skurðaðgerðir á ungabörnum án þess að það þurfi. Það getur haft slæmar afleiðingar til framtíðar,“ segir hann.

Aðeins er hægt að skrá fólk kvenkyns eða karlkyns hér á landi, til dæmis hjá Þjóðskrá. Daníel segir brýnt að breyta því fyrir fólk sem upplifir sig sem hvorugt kynið.

Vilja koma Íslandi í fremstu röð

Margar þeirra breytinga sem þarf að gera á landi eru nefndar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Meðal þess sem hafi dregið Ísland neðar á lista yfir réttindi hinsegin fólks eftir ríkjum sé skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf, að sögn Iðunnar. Með gildistöku laganna muni staða Íslands batna til muna. „Ríkisstjórnin vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks og bætt löggjöf um réttindi hinsegin fólks er eitt skref í þá átt. Í frumvarpi til laga um réttindi hinsegin fólks er meðal annars kveðið á um það að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu,“ segir hún. Löggjöfin nær einnig yfir kynrænt sjálfræði og er þar af leiðandi í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks, að sögn Iðunnar.

Daníel segir vanta í frumvarpið að bæta stöðu hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Staða þeirra sé mjög slæm. Aðbúnaður fyrir hinsegin hælisleitendur hér á landi sé í mörgum tilvikum ekki nógu góður. Dæmi séu um að hinsegin karlar dvelji í herbergi með öðrum körlum úr sama heimshluta, þar sem refsing fyrir samkynhneigð sé dauðadómur. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir