Ísland ekki í FIFA 17 - of lág upphæð boðin

Mynd með færslu
 Mynd: EA Sports

Ísland ekki í FIFA 17 - of lág upphæð boðin

20.09.2016 - 11:42
Íslensku landsliðin eru ekki með í hinum geysivinsæla tölvuleik FIFA 17 sem kemur út í lok mánaðarins. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Nútímann að framleiðendur leiksins hafi boðið of lága upphæð fyrir réttindin.

Morgunblaðið greindi frá því um helgina að íslensku landsliðin séu ekki með í 2017 útgáfu leiksins. FIFA leikirnir eru vinsælasta tölvuleikjasería sögunnar en meira en 100 milljón eintök hafa selst af leiknum.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Nútímann að EA Sports, framleiðandi leiksins, hafi haft samband og leitast eftir því að fá að nota Ísland með í leiknum. Geir segir að ekki hafi náðst samningar um fjárhæð fyrir réttindin því EA Sports hafi boðið lítilræði sem KSÍ sætti sig ekki við.

14 kvennalandslið eru með í leiknum í ár og 47 karlalandslið. Íslenska kvennalandsliðið er í 16. sæti heimslistanas og karlalandsliðið er í því 27.

Þrátt fyrir neitun KSÍ verða engu að síður einhver íslensk áhrif með í leiknum í ár. EA Sports hreifst svo að stuðningsmönnum Íslands á EM í sumar að fyrirtækið ákvað að hafa víkingaklappið svokallaða með í leiknum.

Buðu um milljón

Geir Þorsteinsson sagði svo í dag í viðtali við Vísi.is að EA Sports hefði boðið um eina milljón króna. 

„Þetta var mjög lág upphæð frá fyrirtæki sem græðir á tá og fingri er mér sagt,“ sagði Geir við Vísi. „Við komum með gagntilboð en það var ekki áhugi fyrir því.“

Aðspurður segir Geir að KSÍ geti ekki gefið réttindi landsliðsins frá sér þó um sé að ræða mikla og góða kynningu fyrir liðið.

„Þetta er bara eins og önnur viðskiptatækifæri. Ég er viss um að þeir urðu að meta það sínum megin frá. Íslenska landsliðið vakti athygli um allan heim. Við getum ekki gefið réttindin frá okkur,“ sagði Geir við Vísi.is.

FIFA 17 kemur út 29. september næstkomandi.