Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Íslamskt ríki getur opnað aðra .is síðu

13.10.2014 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri ISNIC segir í raun ekkert geta komið í veg fyrir að samtökin Íslamskt ríki opni aðra vefsíðu með endingunni .is.

Fyrirtækið ISNIC lokaði í gær léni samtakanna Íslamskt ríki en vefsíðan var hýst hér á landi. Á vefsíðunni mátti sjá myndbönd af aftöku samtakanna á erlendum gíslum sínum. ISNIC hefur aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar. Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC, segir að þeir hafi fyrst komist á snoðir um málið á laugardagsmorgun. 

„Og síðan er það lögfræðingurinn okkar sem sér að við erum með gamla grein, níundu grein annars töluliðar í reglum ISNIC, sem beinlínis setur þá ábyrgð á hendur rétthafa léns að fara að íslenskum lögum. Og þá var ég kominn með ástæðu í hendurnar til þess að bregðast við því það er augljóst að ef rétthafinn var tengdur Islamic state var hann að brjóta lög,“ segir Jens, sem þar vísar til nokkurra lagagreina, meðal annars 22. greinar almennra hegningarlaga, þar sem segir að ólöglegt sé að hvetja til verknaðar sem sé refsiverður. 

„Og við rifjuðum bara upp fréttir af því að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og rætt um aðgerðir gegn þessum hryðjuverkasamtökum. Þar með eru þeir komnir á skrá hjá Sameinuðu þjóðunum og eru þá skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.“

Jens Pétur segir að í raun sé ekkert sem komi í veg fyrir að samtökin opni aðra síðu með endingunni .is.

„Það eru margar leiðir fyrir þessi samtök og önnur, til þess að opna vefsíður undir .is lénum. Bæði nýjum lénum og gömlum. Hins vegar fylgist ISNIC með lénaskráningum en ISNIC getur aldrei vitað hvað á eftir að verða á nýju léni þegar það er stofnað, það á allt eftir að koma í ljós.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir ákvörðun ISNIC á Facebook síðu sinni, og segir að almenningur verði að fá að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndir sem finnast í mannlegu samfélagi. Jens Pétur skilur þessa gagnrýni.

„Ég er sammála því, maður á kannski að horfast í augu við það illræmdasta og taka á því með upplýsandi umræðu. En við tókum engu að síður þessa ákvörðun vegna þess að við getum valið hverja við ætlum að þjónusta. Við erum einkafyrirtæki. Og við ætlum ekki að þjónusta þessa aðila.“