Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslamska ríkinu engin miskunn sýnd

14.11.2015 - 18:47
epa05024398 French President Francois Hollande awaits the arrival of Tunisian President Beji Caid Essebsi at the Elysee Palace in Paris, France, 14 November 2015. Essebsi arrived in Paris to express hgis condolences on behalf of the Tunisian people
Francois Hollande, forseti Frakklands. Mynd: EPA
Ítarleg lögreglurannsókn er hafin á hryðjuverkunum í París í gærkvöld og nótt. Húsleit var gerð í Brussel síðdegis vegna þeirra og nokkrir menn handteknir.

Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið lýstu ódæðunum á hendur sér í yfirlýsingu á netinu í dag. Árásin hafi verið hefnd fyrir þátttöku Frakka í sókninni gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi og til að sýna að Frakkland væri enn skotmark samtakanna.

Francois Hollande Frakklandsforseti sagði að Íslamska ríkinu yrði ekki sýnd nein miskunn. Vegna þess að árásin hafi verið ofbeldisfull og óafsakanleg og Frakkar ætli að beita öllum lagalegum leiðum til að vinna gegn samtökunum. Það verði gert á hvaða vettvangi sem verði í samráði við bandamenn.

Viðamikil rannsókn er hafin á árásunum. Innanríkisráðherra Þýskalands segir of snemmt að fullyrða að handtaka á manni með vopn í bíl sínum í Bæjaralandi tengist Parísarárásunum. Lögreglan í Brussel gerði húsleitir í belgísku höfuðborginni í dag. Heimildir þarlendra blaða herma að þær tengist hryðjuverkaárásunum.

Hópur manna hafi verið handtekinn. Heimildir franskra fjölmiðla herma að árásarmennirnir átta sem féllu hafi verið á aldrinum fimmtán til átján ára. Þeir hafi tilheyrt afmarkaðri hryðjuverkasellu og verið í Sýrlandi.

Ekki er vitað með vissu hvers lenskir þeir voru. Einn er talinn hafa verið franskur ríkisborgari og vegabréf frá Sýrlandi og Egyptalandi fundust á vettvangi árásarinnar við Bataclan tónleikastaðinn. Óvíst er hverjum þau tilheyrðu. Grískur ráðherra segir að sýrlenska vegabréfið hafi verið í eigu hælisleitanda sem var skráður á grískri eyju í síðasta mánuði.