Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íslamska ríkið fer vaxandi á ný

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hryðjuverkasveitinni sem kennir sig við íslamskt ríki vex ásmegin í Miðausturlöndum. Liðsmenn hennar bíða færis á að gera árás í vesturlöndum að sögn Sameinuðu þjóðanna.

Leyniþjónustur aðildarríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna afhentu ráðinu skýrslu um vöxt vígahreyfingarinnar í Írak og Sýrlandi. Þar hafa liðsmenn hennar gert árásir og unnið hart að því að leysa vígamenn úr varðhaldi. Að sögn Guardian lýsir skýrslan vígahreyfingu sem hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum, en er ákveðin í að snúa aftur, vel fjármögnuð og er henni lýst sem mikilli ógn bæði í Miðausturlöndum og á heimsvísu.

Ótímabær yfirlýsing Trumps

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir í fyrra að íslamska ríkið væri nánast sigrað. Sérfræðingar, bandalagsþjóðir Bandaríkjanna og háttsettir embættismenn í Bandaríkjunum dróu fullyrðingu Trumps í efa, og var meðal annars varað við endurreistu íslömsku ríki í skýrslu bandaríska varnarmálaráðuneytisins í ágúst. Sú skýrsla var gefin út áður en sérsveitarmenn úr Bandaríkjaher réðu Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga íslamska ríkisins, af dögum. Amir Mohammen Abdul Rahman al-Mawli al-Salbi er talinn hafa tekið við keflinu af Baghdadi. Hann er einn stofnenda íslamska ríkisins og stýðri aðgerð vígahreyfingarinnar við að hneppa Jasída í Írak í þrældóm. 

Í skýrslunni segir að taka verði á málum erlendra stríðsmanna íslamska ríkisins. Stór hluti þeirra 40 þúsund sem eru í vígahreyfingunni komu frá öðrum löndum en Sýrlandi og Írak. Flestir erlendu vígamennirnir eru enn á lífi segir í skýrlsunni. Lýst er miklum áhyggjum af gæsluvarðhaldsaðstöðu í Sýrlandi þar sem vígamenn eru í haldi.

Íslamska ríkið er þó enn sagt of veikt til þess að samtökin geti ógnað Evrópuríkjum að ráði. Þar verða samtökin að reiða sig á hryðjuverkamenn sem búa í Evrópu. Þeir hafa reynst óáreiðanlegir og áhrifalitlir, segir í skýrslunni.