Isavia með tryggingu fyrir skuldum WOW

25.03.2019 - 16:03
Mynd:  / 
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðhera, segir að Isavia hafi „ákveðnar tryggingar fyrir skuldum WOW Air.“ Hún fór ekkert nánar út í þær tryggingar. Bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið hafa greint frá því að skuldir WOW við Isavia hafi verið 1,8 milljarðar íslenskra króna í árslok. Forsætisráðherra segir Isavia hafi sýnt því skilning að WOW væri að ganga í gegnum erfiðleika.

Erfiðleikar WOW Air hafa valdið talsverðum taugatitringi í dag eftir að Icelandair sleit viðræðum sínum við flugfélagið í gær.  Enda kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að staða flugfélagsins væri einn af óvissuþáttunum.  

Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag að ekki kæmi til greina að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og flugrekstur. Og undir það tekur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „Við teljum ekkert réttlæta það að ríkið grípi inn í reksturinn með beinum hætti.“

Katrín dró enga dul á að gjaldþrot WOW yrði mikið högg fyrir ferðaþjónustuna. „En við bindum auðvitað enn þá vonir við það að þetta geti gengið hjá félaginu,“ sagði Katrín við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur á Alþingi í dag. Hún sagði mikilvægt að gleyma því ekki að íslenskt hagkerfi stæði vel um þessar mundir og að skuldastaða ríkisins hefði verið að batna. „Þannig að mörgu leyti eru kennitölurnar í hagkerfinu góðar.“

Hún hefði þó þungar áhyggjur af stöðu WOW en upplýsti að forsvarsmenn flugfélagsins hefðu átt fund með Samgöngustofu þar sem farið hefði verið yfir þeirra áætlanir. „Við vitum að það er verið að safna saman skuldabréfaeigendum til þess að skoða einhverja aðgerðir fyrir félagið og við fylgjumst með því en óvissan er auðvitað mikil.“ 

Katrín sagði það ekkert launungarmál að staða félagsins væri þung og það ætti ekki að koma neinum á óvart á þessum tímapunkti.  Ekki væri heldur hægt að horfa fram hjá því að það hefðu verið erfiðleikar í flugrekstri víðar en á Íslandi.  „Ég get ekki annað sagt en að ég hafi áhyggjur af þessu og ég haft það lengi.“  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi