Ísafjarðarbær biðst afsökunar

19.09.2016 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísafjarðarbær biðst afsökunar á því að mæling á neysluvatni Flateyringa þann 30. ágúst og 12. september leiddi ekki til nauðsynlegra viðbragða og upplýsingagjafar. Saurgerlamengun mældist í neysluvatninu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Gísla H. Halldórssyni bæjarstjóra.  Þar segir að engar líkur séu á því að e-coli mengun sé í vatninu eftir að geislunartæki fyrir neysluvatn höfðu verið sett í gang sl. föstudag. Hins vegar hafi viðbrögð og upplýsingagjöf af hálfu bæjaryfirvalda verið ábótavant fyrr í mánuðinum. Á því er beðist afsökunar. 

Yfirlýsing bæjarstjóra í heild:
 

Geislunartæki fyrir neysluvatn á Flateyri voru sett í gang í hádeginu föstudaginn 16. september og engar líkur eiga að vera á að e-coli mengun sé til staðar í neysluvatninu eftir það. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða tók sýni um helgina og ættu niðurstöður að staðfesta að mengun sé úr sögunni en þær munu liggja fyrir á morgun, 20. september. Neysluvatn hefur annars verið í lagi á Flateyri frá árinu 2009 og staðist mælingar, að undanskildum hnökrum sem upp komu í desember 2012.

Ljóst er að mæling mengunar í neysluvatni þann 30. ágúst og aftur nú 12. september leiddi ekki til þeirra viðbragða og upplýsingagjafar sem nauðsynlegt er að eigi sér stað. Ekki er ljóst hvar skilaboðin misfórust þann 1. september, en ljóst er að viðbrögð Ísafjarðarbæjar þegar upplýsingar bárust í síðustu viku voru ekki eins fumlaus og nauðsynlegt er. Það er til heilla að ekki var um að ræða verulega mengun að þessu sinni, en hinsvegar er mjög alvarlegt að mælingar skyldu ekki leiða til tafarlausra aðgerða. Ísafjarðarbær biðst afsökunar á þessum mistökum. Gripið hefur verið til aðgerða sem ættu að tryggja að þessi mistök endurtaki sig ekki.

Gísli H. Halldórsson Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi