Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Írskt smjör í nokkrum íslenskum ostum

10.12.2013 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Írskt smjör er notað í nokkrum tegundum osta Mjólkursamsölunnar. Skorti á íslensku smjöri er um að kenna, segir Mjólkursamsalan. Umbúðir verða ekki merktir sérstaklegar þar sem þetta er tímabundin ráðstöfun.

Þrír gámar voru fluttir til landsins og fór einn til Egilsstaða þar sem írska smjörið verður nýtt í mjólkurstöð MS við framleiðslu á rifnum Mozzarellaosti.

Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir að innflutningur smjörs hafi verið óumflýjanlegur vegna stóraukinnar neyslu smjörs og rjóma sem engan óraði fyrir en rekja megi til lágkolvetnakúra. Þá hafi mjólkurframleiðsla minnkað meira yfir sumarið en búist var við.

Írska smjörinu verður blandað í fleira en rifinn Mozzarellaost, einnig í svokallaða bræðsluosta svo sem piparost og einnig smurosta. Einar segir að ekki standi til að merkja umbúðir sérstaklega heldur tilkynna það þegar vörurnar koma á markað. Írska smjörið þarf einungis að nota í stuttan tíma til að tryggja íslenskt smjör og rjóma yfir hátíðarnar. Írska smjörið er staðalsmjör, uppfyllir sömu kröfur og það íslenska og finnst enginn munur á bragði eða áferð. 

Enginn sá fyrir að Íslendingar yrðu svo fíknir í feitari mjólkurvörur sem raun ber vitni. MS flutti út smjör í byrjun árs og hafði skuldbundið sig til að senda meira úr landi. Fyrirtækið þurfti að hætta við það og borga bætur fyrir vikið sem Einar forstjóri MS segir að hafi verið lítil upphæð. Sigurður Loftsson, formaður Landsambands kúabænda, segir að aukin eftirspurn eftir feitari mjólkurvörum sé þvert á ræktunarmarkmið síðustu ára. Það miðaði að því að rækta upp kýr sem gefa meira prótein á kostnað fitu. Hinsvegar megi auka fituinnihald mjólkurinnar á nýjan leik með breyttri fóðrun.