Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Iron & Wine

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ó.L. Bragason - Rás 2

Iron & Wine

14.01.2018 - 14:37

Höfundar

Sam Beam heitir hann, Bandaríkjamaðurinn sem ætlar að spila í kvöld í Eldborg í Hörpu undir nafninu Iron & Wine. Hann er gestur Rokklands í dag.

Sam Beam hefur verið að gera músík undir nafninu Iron & Wine í u.þ.b. 15 ár. Ég reyndi að ná í hann í síma í vikunni, það gekk ekki en ég fékk hann til að heimsækja mig í útvarpshúsið á föstudaginn og við áttum saman gott spjall.

Samuel Ervin Beam er 43 ára gamall Bandaríkjamaður, fæddur 1974 í Suður-Karólínu en ólst að hluta til upp á Flórída líka og gekk þar í skóla. Hann býr í dag í Norður-Karólínu með eiginkonu sinni og fjórum af fimm dætrum.

Á ferli sínum hefur Sam Beam gefið út sex plötur sem Iron & Wine, fjölda stutt- og smáskífa, í bland við plötur með fágætu efni sem gefnar eru út í takmörkuðu upplagi. Til að byrja með deildi hann tónlistinni aðeins með konu sinni og dætrum en stuttu eftir að hann byrjaði að gefa tónlist sína út kolféll almenningur fyrir honum. Tónlistin hefur oft hljómað undir í hinum ýmsu kvikmyndum og þáttum, má þar t.a.m. nefna The O.C., Grey's Anatomy, Twilight, House, Ugly Betty og 90210.

Sub Pop útgáfan í Seattle bauð Sam plötusamning og gaf fyrstu plötuna út árið 2002 en þá átti Sam þegar tvær dætur og var sjálfur tæplega þrítugur, starfaði sem kennari í kvikmyndaskóla.

Mike Bridwell, sem er bróðir Ben Bridwell, forsprakka hljómsveitarinnar Band of Horses, og Sam eru gamlir vinir sem bjuggu saman þegar þeir voru í skóla og Ben bjó líka með þeim um tíma líka. Og það var Mike þessi sem kom upptökum með Sam til Sub Pop útgáfunnar á sínum tíma, þegar hann var að reyna að koma hljómsveitinni sem Ben var í á undan Band of Horses, á samning hjá útgáfunni, hljómsveitinni Carissa's Weird. Fólkið hjá Sub Pop bauð Sam útgáfusamning og síðan er hann búinn að vera að gefa út helling af músík og túra um heiminn þveran og endilangan.

Þegar Sam er spurður út í fyrirmyndir og lærimeistara nefnir hann söngvaskáldin stóru; Leonard Cohen, Bob Dylan, Joni Mitchell, Paul Simon, Townes Van Zandt og svo framvegis, fólk orðanna.

Sam spilar með hljómsveit í Eldborg í kvöld og samkvæmt bestu heimildum eru enn til miðar.

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
[email protected]

Rokkland minnir svo á hlaðvarpið þar sem nálgast má eldri þætti langt aftur í tímann, hlaða þeim í tól sín og tæki og hlusta jafnvel á aftur og aftur. Það er líka hægt að gerast áskrifandi að Rokklands-hlaðvarpinu í gegnum iTunes.

Tengdar fréttir

Tónlist

Brot af 2017

Tónlist

Næs jólaball

Tónlist

Leyndarmál í 30 ár

Tónlist

Satanísk Sigur-Rósar orgía