Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Íranir taki þátt í friðarviðræðum

28.10.2015 - 01:43
epa04861260 A handout photo released by Syria's Arab News Agency (SANA) shows Syrian President Bashar Assad delivering a speech during a meeting with heads and members of public organizations, vocational syndicates, and chambers of industry, trade,
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. Mynd: EPA - SANA
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að hleypa Írönum að samningaborðinu þar sem reynt verður að binda enda á borgarastyrjöldina í Sýrlandi. Hingað til hafa Bandaríkin komið í veg fyrir aðkomu Írans.

Samkvæmt heimildum breska dagblaðsins Guardian þurftu yfirvöld í Washington að sannfæra Sádí Araba um að hleypa Írönum að friðarviðræðum sem fara fram í Vínarborg á föstudag. Tvö ár eru síðan Írönum var meinaður aðgangur eftir harða andstöðu Bandaríkjanna, Breta og Sýrlendinga sjálfra.

Aðstæður hafa breyst frá því fyrir tveimur árum. Flóttamannavandi og hernaðarinngrip Rússa hafa bæst við áframhaldandi blóðbað styrjaldarinnar. Pressa hefur því aukist á að finna nýjar lausnir til þess að binda enda á stríðið.

Sigur Rússa
Íranir og Rússar eru miklir bandamenn stjórnvalda í Sýrlandi. Þrátt fyrir aðkomu þeirra að samningaborðinu leggja bandarísk stjórnvöld mikla áherslu á að Bashar al-Assad, núverandi forseta, verði vikið frá völdum. Þau segja hann vera ábyrgan fyrir láti of margra óbreyttra borgara til þess að geta orðið trúverðugur stjórnandi.

John Kirby, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, segir allsherjarmarkmiðið vera að koma á stjórn í Sýrlandi sem ekki verði leidd af Assad. Stjórn verði við völd sem taki málstað sýrlensku þjóðarinnar og svari kalli hennar. Hann svaraði því ekki hvort búið væri að gera stjórnvöldum í Íran grein fyrir þessum markmiðum.

Ákvörðunin er ákveðinn sigur fyrir Rússa. Þeir hafa alltaf litið á það sem mistök að Írönum hafi verið meinaður aðgangur fyrir tveimur árum.
Stríðið í Sýrlandi hefur kostað að minnsta kosti 250 þúsund mannslíf og yfir 11 milljónir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.