Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

iPad jólagjöfin í ár

22.12.2013 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd:
iPad spjaldtölvur seldust upp hjá flestum söluaðilum í desember. Enn eru um fimmtán hundruð manns á biðlista eftir iPad. Umboðsaðili fyrir iPad telur söluaukningu á raftækjum vera um 20-30% á milli ára.

iPad virðist vera jólagjöfin í ár, en allar slíkar spjaldtölvur seldust upp í verslun epli.is og víðar. Ódýrasti iPadinn kostar um 50 þúsund krónur og sá dýrasti um 190 þúsund krónur. Bjarni Ákason er umboðsaðili fyrir iPad á Íslandi. Hann segir verslun hafa farið hægt af stað, en svo hafi salan tekið kipp og varan selst upp á nokkrum dögum.  

„Þetta gerist bara á nokkrum dögum, kannski þrem fjórum dögum og fólk er að fá sér síma og tölvur og það hefur selst mjög vel. Það er mikil aukning í tölvusölu í einingum, höfum við séð, núna í desember, miðað við desember í fyrra. Við höfum ekki orðið fyrir neinni niðursveiflu eða þannig. Það hefur bara verið aukning í undanfarin fimm ár.“

Bjarni á von á sendingu á morgun, en hún dugar skammt, þar sem biðlistinn er langur, eða um fimmtánhundruð manns. Einungis fimmtíu þeirra fá iPad í hendurnar fyrir jól.

Enn er hægt að fá iPad í versluninni iStore í Kringlunni, sem á von á sendingu á morgun.