IOC segir Ólympíuleikana á áætlun

Mynd með færslu
Svona verða merki Ólympíuleikanna og Ólympíumóts fatlaðra í Tókýó 2020. Mynd: IOC - Tokyo2020

IOC segir Ólympíuleikana á áætlun

17.03.2020 - 16:09
Framkvæmdastjórn Alþjóða Ólympíunefndarinnar, IOC, fundaði í dag vegna Covid-19 faraldursins. Ekki stendur til að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó.

IOC fundaði í dag með þeim hagsmunaaðilum sem að leikunum í sumar koma. Þar má telja fulltrúa Ólympíunefnda keppnisþjóðanna (NOC), fulltrúa íþróttafólks, Alþjóðasamtök fatlaðs íþróttafólks (IPC) og fulltrúa alþjóða íþróttasambanda.

Niðurstaðan var í stuttu máli sú að ekki sé ástæða að svo stöddu til að fresta Ólympíuleikunum. Leikarnir verða settir í Tókýó þann 24. ágúst.

„IOC stendur fast á leikunum í Tókýó 2020 og þegar rúmir fjórir mánuðir eru til stefnu er ekki rétti tíminn til að grípa til drastískra aðgerða og allar vangaveltur um slíkt hefðu þveröfug áhrif sem stendur,“ segir í yfirlýsingu IOC.

 

„IOC hvetur allt íþróttafólk til að halda áfram undirbúningi sínum fyrir leikana eins og kostur er. Við munum styðja við íþróttafólkið með ráðgjöf til þeirra og Ólympíunefnda viðkomandi landa.“

IOC segist styðja heilshugar við bakið á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til um víða veröld til að koma böndum á Covid-19 vírusinn. IOC setti á fót starfshóp í síðasta mánuði með fulltrúum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, japönsku ríkisstjórnarinnar, skipulagsnefnd leikanna 2020 og borgarstjórn Tókýó. IOC nýtur ráðlegginga þessa starfshóps og mun gera það áfram.