Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Interpol lýsir eftir Íslendingi

27.06.2012 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Tuttugu og níu ára gamall karlmaður, Steinar Aubertsson, er eftirlýstur af Interpol vegna gruns um aðild að smygli á miklu magni af kókaíni. Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Steinari.

Upp komst um málið í lok maí þegar tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði íslenska konu og danskan karl, bæði á sjötugsaldri, sem voru að koma frá Danmörku. Í ferðatösku þeirra var vandlega falið mikið magn af kókaíni. Fólkinu var sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Þrjú grunuð um innflutninginn

Málið er stórt í sniðum. Húsleit var gerð á nokkrum stöðum þar sem hald var lagt á töluvert af fíkniefnum, kona á þrítugsaldri og karlmaður á fertugsaldri voru handtekin og sett í gæsluvarðhald þar sem þau sitja enn. 

Þriðji Íslendingurinn sem grunaður er í málinu, Steinar Aubertsson, er eftirlýstur. Steinar er fæddur 1983. Í gær var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum og birtar upplýsingar um hann og mynd á vefsíðu Interpol.

Sjaldgæft að fólk á sjötugsaldri sé viðriðið smygl

Í tölfræðiskýrslum ríkislögreglustjóra má sjá að síðustu ár hefur verið lagt hald á um 5-8 kg af kókaíni árlega, Undantekningin er árið 2006 þar sem hald var lagt á tæp 13 kg. Árlega koma upp um það bil 100 mál sem varða innflutning fíkniefna. Sjaldgæft er að fólk á sjötugsaldri sé staðið að slíkum innflutningi. Árið 2008 var Hollendingur á sjötugsaldri gripinn með um 190 kíló af hassi í húsbíl sínum.

Sama ár var Þjóðverji um sjötugt tekinn með mikið magn af hassi og amfetamíni við komu hingað með Norrænu. Lögregla vill ekki segja hvort eldra parið í þessu máli hafi vitað af fíkniefnunum í ferðatöskunni og verst allra frekari frétta af málinu enda sé rannsókn þess á viðkvæmu stigi.