Intermezzo úr Dimmalimm

Mynd: RÚV / RÚV

Intermezzo úr Dimmalimm

31.08.2018 - 19:04

Höfundar

Intermezzo úr Dimmalimm (1967/1969) eftir Atla Heimi Sveinsson.

Árið 1970 var frumflutt í Þjóðleikhúsinu barnaleikritið Dimmalimm eftir Helgu Egilson, byggt á ævintýrinu vinsæla eftir móðurbróður hennar, Guðmund Thorsteinsson. Tónlistin var eftir Atla Heimi Sveinsson, sem sagði í viðtali um kröfurnar sem gerðar væru til balletttónlistar fyrir börn: „Það verður að vera voðalega sæt músík.“ Tónlistin var þó að nokkru leyti fengin úr eldra verki, Guðsbarnaljóði við ljóð Jóhannesar úr Kötlum.

Þess má til gamans geta að tveir flytjendur á tónleikunum í kvöld voru í lykilhlutverkum í sýningunni: Júlíana Elín Kjartansdóttir, sem um áratuga skeið hefur leikið í 1. fiðlu Sinfóníuhljómsveitarinnar, lék sjálfa Dimmalimm, og Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnaði kór 15 barna úr Tónlistarskólanum í Reykjavík. Tónlistin við Dimmalimm var af ýmsum toga, forleikur, einsöngs- og kórlög, og hið undurfagra millispil fyrir flautu og hörpu sem hér hljómar.


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.