Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innkalla Simpsons-þátt vegna aðkomu Jacksons

Mynd með færslu
 Mynd:

Innkalla Simpsons-þátt vegna aðkomu Jacksons

08.03.2019 - 17:39

Höfundar

Framleiðendur Simpsons-þáttanna hafa ákveðið að taka fyrsta þátt þriðju seríu, Bandbrjálaðan pabba, út af öllum streymisveitum og úr endursýningum sjónvarpsstöðva – vegna þess að Micheal Jackson talaði inn á hann.

Ákvörðunin kemur í kjölfar sýningar HBO-heimildamyndarinnar Leaving Neverland þar sem James Safechuck og Wade Robson lýsa áralöngu kynferðisofbeldi Jacksons sem hafi hafist þegar þeir voru sjö og tíu ára. Í Simpsons-þættinum sem nú hefur verið tekinn úr umferð, Bandbrjálaður pabbi (e. Stark Raving Dad), lendir Homer inni á geðsjúkrahúsi þar sem hann kynnist manni með ranghugmyndir um að hann sé Michael Jackson, en sá var talsettur af söngvaranum sjálfum. Þættinum var fyrst sjónvarpað árið 1991 en það var ekki gert opinbert fyrr en mörgum árum síðar að hinn eini sanni Michael Jackson hafi ljáð honum rödd sína.

James L. Brooks segir í viðtali við Wall Street Journal að þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun hans og hinna aðalframleiðandanna, Matt Groening og Al Jean. „Allt okkar líf höfum við rifist um brandara en við vorum strax sammála um þetta. Þetta var það eina í stöðunni. Ég er á móti öllum bókabrennum. En þetta er bókin okkar og við megum alveg rífa úr henni einn kafla.“

Lengi hafa verið uppi ásakanir um ósæmilega tilburði Jacksons gagnvart ungum drengjum en söngvarinn, og fjölskylda hans eftir að hann lést 2009, hafa ávallt harðneitað því að einhver fótur væri fyrir þeim. Í Leaving Neverland eru nokkuð sláandi lýsingar á ofbeldinu sem mennirnir segjast hafa orðið fyrir, Jackson á til að mynda að hafa sviðsett brúðkaup milli sín og Safechuck, og gefið honum rándýra skartgripi sem verðlaun eftir að hafa brotið á honum. Fall tónlistarmannsins sem áður var kallaður konungur poppsins er svo sannarlega hátt, en í kjölfarið á sýningu myndarinnar hafa ýmsar útvarpsstöðvar tekið ákvörðun um að hætta að spila tónlist Jacksons. Fjölskylda tónlistarmannsins hyggst hins vegar stefna HBO-sjónvarpsstöðinni fyrir meiðyrði vegna myndarinnar. Leaving Neverland verður sýnd á RÚV á mánudag og miðvikudag.

Tengdar fréttir

Tónlist

Segir frá sýndarbrúðkaupi sínu og Jacksons

Menningarefni

Michael Jackson: Áratugir af ásökunum

Tónlist

Á að spila tónlist Jacksons áfram?

Tónlist

Misnotkun lýst í smáatriðum